Vilja bjarga heimsins þyngstu konu

Læknirinn Muffazal Lakdawala horfir á mynd af Eman Ahmed Abd …
Læknirinn Muffazal Lakdawala horfir á mynd af Eman Ahmed Abd El Aty á blaðamannafundi. AFP

Læknar á Indlandi hafa unnið að því að undirbúa egypska konu, sem talin er sú þyngsta í heiminum, fyrir skurðaðgerð sem er hugsuð til þess að bjarga lífi hennar. Konan, hin 37 ára gamla Eman Ahmed Abd El Aty, vegur um 500 kíló og hafði ekki yfirgefið heimili sitt í meira en tvo áratugi þegar flogið var með hana til indversku borgarinnar Mumbai um helgina.

Fram kemur í frétt AFP að undirbúningurinn fyrir skurðaðgerðina felist meðal annars í því að setja Abd El Aty á fljótandi fæði. Haft er eftir læknunum að hún verði á þessu fæði næstu 25 dagana og er stefnt að því að með því losni hún við um 50 kíló sem sé ein forsenda aðgerðarinnar. Gert er ráð fyrir að skurðaðgerðin taki um tvær og hálfa klukkustund.

Vonast er til þess að skurðaðgerðin geri Abd El Aty kleift að losna við 150 kíló til viðbótar. Þar með gæti hú setið og borðað sjálf sem hún getur ekki í dag. Eftir aðgerðina verður Abd El Aty undir eftirliti í fimm mánuði þar sem hún mun gangast undir endurhæfingu sem miðar meðal annars að því að þjálfa vöðva hennar áður en hún heldur aftur heim til Egyptalands.

Takist skurðaðgerðin, sem er magaminnkunaraðgerð, standa vonir til þess að hægt verði að ná þyngd Abd El Aty undir 100 kíló eftir um tvö ár með frekari aðgerðum að sögn læknisins Muffazal Lakdawala. Abd El Aty var flutt til Indlands á laugardaginn með sérstaklega innréttaðri farþegaflugvél en hún býr í borginni Alexandríu í Egyptalandi.

Systir hennar hafði samband við Lakdawala í október og vakti athygli hans á málinu en þyngd hennar er afleiðing sjúkdóms sem kallaður hefur verið fílsfótur (elephantiasis) og er þess valdandi að útlimir og aðrir líkamshlutar bólgna þannig að sjúklingurinn verður ófær um að komast á milli staða. 

Abd El Aty hefur fengið hjartaáfall vegna ástands síns og ýmsir kvillar herjað á hana af þeim sökum eins og sykursýki, hár blóðþrýstingur og svefntruflanir. Beiðni um vegabréfsáritun til Indlands var upphaflega hafnað en systir hennar hafði þá samband beint við utanríkisráðherra landsins í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter og greip hann inn í málið.

Löng bið tók við þar sem ekkert flugfélag var reiðubúið til þess að fljúga með hana í ljósi heilsufars hennar. Vinsælt er að fara til Indlands í magaminnkunaraðgerðir. Þar eru stuttir biðlistar og aðgerðin kostar mun minna en í vestrænum ríkjum að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert