60 þúsund manns að svelta í hel

AFP

Sameinuðu þjóðirnar óttast um afdrif 60 þúsund íbúa fjögurra stríðshrjáðra bæja í Sýrlandi  en fjölmargir eru við dauðans dyr vegna skorts á nauðsynjum. Biðlað er til stríðandi fylkinga um að heimila hjálparstofnunum að koma nauðsynjum til íbúa áður en það verður of seint.

Ali al-Za'atari, sem fer með mannúðarmál í Sýrlandi fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, segir ástandið í bæjunum fjórum: Zabadani, Madaya, Fua og Kafraya, skelfilegt.

Zabadani og Madaya eru í Damaskus-héraði en stjórnarherinn situr um bæina. Aftur á móti eru Fua og Kafraya í herkví uppreisnarmanna. Ali al-Za'atari segir að 60 þúsund saklausir borgarar séu innilokaðir í hringiðu ofbeldis og neyðar þar sem vannæring og skortur á almennilegri heilbrigðisþjónustu er daglegt brauð. 

Hann segir að stórslys vofi yfir bæjarbúum ef ekkert verður að gert og nauðsynlegt sé að veita þeim aðstoð eins fljótt og auðið er eða áður en það verður of seint.

Za'atari segir að staðan sé svipuð í öllum bæjunum fjórum þar sem þeir sem sitji um bæina hleypi engum inn og engum út.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert