Fylgið hrynur af Fillon

François Fillon.
François Fillon. AFP

Frambjóðanda repúblikana fyrir frönsku forsetakosningarnar, François Fillon, hefur ekki tekist að vinna hylli almennings á nýjan leik eftir að upplýst var um launagreiðslur til eiginkonu hans árum saman.

Samkvæmt nýrri könnun Odoxa hefur fylgi Fillon fallið mikið frá því upplýst var um að eiginkona hans, Penelope, hafi þegið háar fjárhæðir fyrir að gegna starfi aðstoðarmanns hans í mörg ár.

Fylgi Fillon er nú umtalsvert minna en helstu keppninauta, Emmanuel Macron og Marine Le Pen. Fillon nýtur jafnvel minni stuðnings innan eigin flokks en áður.

Hópur þingmanna Les Republicains, flokki Fillon, hittist á fundi í gærkvöldi þar sem umræðuefnið voru komandi forsetakosningar. Fillon hefur ítrekað beðið þingmenn flokksins um að sameinast um að styðja hann en ekki hafa allir svarað því kalli.

Hafa jafnvel sumir þeirra sagt honum að taka ábyrgð á stöðunni og hætta við framboð og leyfa öðrum að koma í sinn stað.

The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert