„Borgið eða við minnkum stuðninginn“

Mattis ásamt Jens Stoltenberg, til hægri, framkvæmdastjóra NATO.
Mattis ásamt Jens Stoltenberg, til hægri, framkvæmdastjóra NATO. AFP

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, gaf bandalagsríkjum NATO skýra viðvörun í dag um að ríkisstjórn Donalds Trumps myndi „stilla skuldbindingum sínum í hóf“ gagnvart bandalaginu, nema hin ríkin leggi meira fjármagn af mörkum.

Þessi skilaboð Mattis til kollega sinna í Brussel fylgja í kjölfar áralangra ákalla frá Washington um að önnur ríki Atlantshafsbandalagsins eyði að minnsta kosti tveimur prósentum þjóðarframleiðslu sinnar í varnarmál. Aðeins nokkur þeirra hafa gert það í raun, þrátt fyrir að þau hafi öll skrifað undir sáttmála þess efnis árið 2014.

Aukin þyngd er þó talin felast í skilaboðunum að þessu sinni, þar sem Trump hefur sjálfur sagt að aðstoð Bandaríkjanna við ríki bandalagsins, en mörg þeirra óttast þegar þá ógn sem stafar af Rússum í austri, gæti ráðist af því hversu miklu þau verja til varnarmála.

„Bandaríkjamenn geta ekki hugsað meira um framtíðaröryggi barna ykkar en þið gerið sjálf,“ sagði Mattis við varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í höfuðstöðvum bandalagsins í dag.

„Ef þjóðir ykkar vilja ekki sjá Bandaríkin draga úr framlagi sínu til þessa bandalags verða höfuðborgir ykkar allra að sýna stuðning sinn við sameiginlega vörn okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert