Bylgja hatursglæpa í kjölfar Brexit

AFP

Yfir 14 þúsund hatursglæpir voru skráðir í Bretlandi á þriggja mánaða tímabili í fyrra, það er frá byrjun júlí til septemberloka, en þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fór fram í júní. 

Um er að ræða fyrstu ársfjórðungsskýrsluna frá lögregluumdæmum í landinu eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna. Í flestum umdæmdum lögreglunnar í Englandi og Wales var um aukningu að ræða, segir í frétt BBC. Í tíu umdæmum fjölgaði hatursglæpum um yfir 50% samanborið við næstu þrjá mánuði á undan.

Ríkislögreglustjóri segir í tilkynningu í október að hatursglæpum hafi fjölgað um 41% í júlí. Af þeim 5.468 glæpum sem tilkynntir voru til lögreglu var töluvert um hótanir, ofbeldi og móðgandi atvik.

Á þriðja ársfjórðungi í fyrra reyndust tilkynningarnar vera fleiri en nokkru sinni fyrr í 33 af 44 lögregluumdæmum Englands og Wales. Mælingar á tilkynningum um hatursglæpi hófust árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert