Ítrekuð samskipti við Rússa

AFP

Starfsmenn forsetaframboðs Donalds Trump voru í reglulegu sambandi, þrátt fyrir að hafa harðneitað því, við háttsetta einstaklinga innan rússnesku leyniþjónustunnar í fyrra. Þetta herma heimildir New York Times innan úr röðum bandarískra embættismanna.

Hljóðritanir og hleranir símtala sýna þetta og sanna, samkvæmt frétt NYT en þar kemur fram að samtölin áttu sér stað bæði á milli starfsmanna framboðs Trump sem og annarra lykilmanna sem tengjast framboði hans í fyrra. Um er að ræða samtöl í fyrra eða töluvert áður en hann er kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Bandaríska alríkislögreglan og leyniþjónustur Bandaríkjanna hleruðu samskiptin á sama tíma og í ljós kom að Rússar voru að reyna að hafa áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna með því að gera tölvuárásir á framkvæmdastjórn Demókrataflokksins, segja þrír embættismenn sem hafa rætt við NYT um samskipti starfsmanna Trump og Rússa. Ekkert komi fram sem bendi til samsæris milli starfsmanna Trumps og rússneskra yfirvalda um að hafa áhrif á kosningarnar. 

Samtölin vöktu hins vegar athygli þeirra vegna þess að á sama tíma talaði Trump fjálglega um kosti forseta Rússlands, Vladimírs Pútín. Í eitt skipti er haft eftir Trump að hann vonaðist til þess að starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar hefðu stolið tölvupóstum Hillary Clinton, keppinautar hans, og myndu birta þá opinberlega. Þessi ummæli lét Trump falla á kosningafundi síðasta sumar.

Embættismennirnir hafa nafngreint einn þeirra sem ræddi við Rússa en það er Paul Manafort, sem stýrði kosningabaráttu Trump um tíma. Hann starfaði áður sem pólitískur ráðgjafi í Úkraínu. Þegar þetta var borið undir hann í gær harðneitaði hann þessu og segir þetta bull og þvælu. Hann hafi aldrei vísvitandi talað við starfsmenn leyniþjónustu Rússlands.

Háttsettir einstaklingar innan Repúblikanaflokksins hafa farið fram á rannsókn á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, Michael Flynn, en hann lét af störfum á mánudagskvöld. Allt bendir til þess að hann hafi verið í ítrekuðum samskiptum við Rússa.

Frétt New York Times

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert