Myndu þurfa leyfi karlmanns fyrir fóstureyðingu

Andstæðingar fóstureyðingar við mótmæli í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum.
Andstæðingar fóstureyðingar við mótmæli í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum. AFP

Nýtt lagafrumvarp sem er nú til umræðu í Oklahoma-ríki Bandaríkjanna neyðir konur til þess að þurfa leyfi frá karlmanni ætli þær í fóstureyðingar. Verði frumvarpið samþykkt þurfa konur skriflegt leyfi frá karlmanni svo að læknir geti eytt fóstri.

Höfundur frumvarpsins, þingmaðurinn Justin Humphrey, hefur kallað þungaðar konur „ekkert nema hýsla“ (e. hosts) og segir að með frumvarpinu fái karlmaðurinn einhverju að ráða þegar kemur að því að eyða fóstrum.

Frumvarpið hefur hinsvegar verið þónokkuð gagnrýnt og sagt niðurlægja konur.

Í frétt BBC kemur fram að andstæðingar fóstureyðinga hafi sótt í sig veðrið eftir að Donald Trump varð forseti. Trump hefur m.a. sagt að það ætti að refsa konum fyrir að fara í fóstureyðingar og að hann muni tilnefna andstæðing fóstureyðinga sem hæstaréttadómara. Staða Neil Gorsuch, sem Trump tilnefndi í embættið fyrr í mánuðinum gagnvart fóstureyðingum liggur ekki fyrir.

Að minnsta kosti ellefu lagafrumvörp gegn fóstureyðingum hafa verið kynnt fyrir þinginu í Oklahoma síðustu misseri, m.a. eitt sem skilgreinir eyðingu fósturs sem morð. Þó er talið ólíklegt að mörg þessara frumvarpa komist á skrifborð ríkisstjórans til staðfestingar.

Fyrrnefnt frumvarp sem neyðir konur til þess að fá samþykki karlmanns fyrir fóstureyðingu leyfir körlum að krefjast faðernisprófs áður en aðgerðin fer fram. Lögin myndu ekki eiga við fórnarlömb nauðgana og sifjaspells.

Orð Humphrey um fóstureyðingar hafa vakið athygli, sérstaklega þegar hann kallar konur „ekkert nema hýsla“.

„Ég skil að þeim [konum] líður þannig að þetta sé þeirra líkami. Mér finnst þetta aðskilið, það sem ég kalla þær, ég segi þú ert „hýsill“. Þú veist að þegar þú byrjar í sambandi verður þú þessi hýsill og ef þú veist það fyrirfram þarftu að gæta þín og ekki verða ólétt,“ sagði Humphrey í samtali við bandarísku síðuna The Intercept.

Oklahoma er þegar með eina af ströngustu fóstureyðingalöggjöfum Bandaríkjanna. Ríkisstjórinn beitti hinsvegar neitunarvaldi á frumvarp á síðasta ári sem myndi senda lækna sem framkvæma fóstureyðingar í fangelsi.

Konur sem vilja fara í fóstureyðingar í Oklahoma þurfa nú þegar að bíða í 72 klukkustundir eftir aðgerðinni eftir að sótt er um hana. Þá þurfa þær að undirgangast fræðslu um meint tengsl milli fóstureyðinga og brjóstakrabbameins, þrátt fyrir að krabbameinsfélög og aðrir sérfræðingar segi tengslin engin.

Diane Horvath-Cosper, talskona samtakana Physicians for Reproductive Health sem styður fóstureyðingar, segir frumvarp Humphrey hannað til þess að kalla smán yfir konur og niðurlægja þær sem sækjast eftir fóstureyðingum.

Samtökin og aðrir aðgerðarsinnar vonast þó til þess að frumvarpið komist ekki langt í ljósi  þess að ríkisstjórinn beitti neitunarvaldi á fyrra frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert