Ólympíumeistara sleppt án ákæru

Grant Hackett.
Grant Hackett. AFP

Ástralski sundmaðurinn Grant Hackett, tvöfaldur ólympíumeistari, var látinn laus án ákæru í morgun eftir að fjölskylda hans hafði óskað eftir lögregluaðstoð vegna hegðunar hans fyrr um daginn. 

Faðir hans, Neveille, segir við fjölmiðla að þau hafi óskað eftir aðstoð lögreglu á heimili fjölskyldunnar í Southport þar sem Hackett var stjórnlaus af völdum áfengisneyslu og reiði. Fjölskyldan óttast um andlega heilsu sundkappans sem var algjörlega stjórnlaus um morguninn eftir mikla drykkju.

Hackett reyndi að komast á Ólympíuleikana í Ríó í fyrra og verða þar með elsti ástralski sundmaðurinn til þess að keppa á Ólympíuleikum en hann er 36 ára gamall. Litlu munaði að honum tækist ætlunarverkið.

Hackett hætti keppni eftir Ólympíuleikana í Peking árið 2008 þar sem hann vann gullverðlaunin í 1.500 metra skriðsundi en það gerði hann líka í Sydney árið 2000 og í Aþenu fjórum árum síðar. Í apríl komst hann í fréttirnar eftir að hafa valdið usla um borð í farþegaþotu og ýjaði í kjölfarið að því að hætta að neyta áfengis.

Hackett var sakaður um að hafa klipið í geirvörturnar á farþega sem sat við hliðina á honum á viðskiptafarrými flugvélar á leiðinni frá Adelaide en þar hafði hann reynt við ólympíulágmarkið. Tilraun sem mistókst.

Hackett viðurkenndi að hafa drukkið ótæpilega og bað manninn afsökunar sem varð fyrir áreitinu.

Bróðir hans segir að Grant eigi við mikil vandamál að stríða og það sé ekki sá Grant sem fjölskyldan þekki þegar hann er undir áhrifum áfengis. „Þetta er líkami hans en ekki hugur hans og sál,“ segir bróðir hans þegar fjölskyldan ræddi við fjölmiðla í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert