Bandaríkin styðji tveggja ríkja lausnina

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hafnar því að Bandaríkin séu að segja skilið við tveggja ríkja lausnina svokölluðu, á deilu Ísraela og Palestínumanna. Segir hún að stjórnvöld í Washington styðji tvímælalaust þá lausn, en vilji ferskar hugmyndir um hvernig framhaldið skuli vera.

„Hver sá sem vill segja að Bandaríkin styðji ekki tveggja ríkja lausnina, það væri vitleysa,“ sagði Haley við blaðamenn sem saman voru komnir í höfuðstöðvum SÞ.

„Við styðjum tveggja ríkja lausn, en erum einnig að hugsa út fyrir kassann,“ sagði Haley að loknum fundi öryggisráðsins um deilu þjóðanna tveggja.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að tveggja ríkja lausnin væri Bandaríkjunum ekki mikið kappsmál.

Ég er að horfa á tveggja ríkja lausn­ina og eins rík­is lausn­ina, og mér lík­ar sú sem báðar fylk­ing­ar geta unað við. Ég er mjög ánægður með þá sem báðum lík­ar. Ég get unað við aðra hvora,“ sagði Trump á blaðamannafundi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert