Bandaríkjaher notaði úran gegn Ríki íslams

Árásirnar voru gerðar í nóvember árið 2015.
Árásirnar voru gerðar í nóvember árið 2015. AFP

Bandaríkjaher notaði sneytt úran í sprengiskot gegn skriðdrekum í tveimur tilvikum árið 2015, í loftárásum gegn vörubílalestum Ríkis íslams. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti þetta nú í kvöld.

Vitað er að herinn metur mikils eiginleika úransins, en það fer auðveldlega í gegnum brynvarnir ýmiss konar. En notkun þess hefur sætt gagnrýni vegna þeirrar hættu sem af því getur stafað gagnvart heilsu hermanna og sömuleiðis gagnvart almennum borgurum í nágrenni átakanna.

Þá hefur umhverfisstofnun SÞ lýst umræddu úrani sem „efnafræðilega og geislafræðilega eitruðum þungmálmi.“

Svokallað sneytt úran er aukaafurð þess ferlis þegar úran er auðgað, og er „nokkuð geislavirkt, með um 60% af geislavirkni náttúrulegs úrans,“ segir í greiningu stofnunarinnar.

Talsmaður ráðuneytisins sagði orrustuþotur hersins, af gerðinni A-10, hafa notast við skotin 16. og 22. nóvember árið 2015, í árásum gegn vöruflutningabílum sem voru að flytja olíu fyrir hryðjuverkasamtökin.

Í árásunum var alls notast við 5.265 skot af þessari gerð, ásamt annars konar skotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert