Útfarargestir urðu fyrir loftárás

Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Jemen síðustu tvö árin. …
Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Jemen síðustu tvö árin. Yfir 7.400 manns hafa fallið. AFP

Átta konur og eitt barn létust í loftárás í nágrenni höfuðborgar Jemen í nótt. Hinir látnu voru gestir í jarðarför. Tíu konur til viðbótar særðust í árásinni. 

Uppreisnarmenn Húta, sem hafa höfuðborgina Sanaa á sínu valdi, saka bandamenn, undir forystu Sádi-Araba, um að bera ábyrgð á loftárásinni.

Borgarastríðið í Jemen hefur tekið sinn toll. Bandalagsríkin styðja forsetann Abedrabbo Mansour Hadi en Hútar njóta stuðnings Írana. Þeir styðja fyrrverandi forseta landsins, Ali Abdullah Saleh.

Borgarastyrjöldin braust út af fullu afli í mars fyrir tveimur árum er bandalagsríkin hófu árásir á uppreisnarmenn sem höfðu brotist til valda í höfuðborginni.

Sameinuðu þjóðirnar telja að meira en 7.400 manns, þeirra á meðal 1.400 börn, hafi fallið í átökum víðs vegar um landið síðustu tvö ár.

Bandalagsríkin hafa ítrekað verið sökuð um að beina árásum sínum að brúðkaupum, jarðarförum, skólum og sjúkrahúsum í Jemen. Talsmenn bandalagsins neita að um viljaverk sé að ræða. 

Í október viðurkenndu þau þó að hafa drepið 140 manns í árás sem gerð var á útför í Sanaa. Sögðu þau að „rangar upplýsingar“ hefðu orðið til þess að árásin var gerð. 

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch gáfu út skýrslu nýverið þar sem því er haldið fram að bandalagsríkin beri ábyrgð á árás sem gerð var á markað 10. janúar. Í henni létust fimm, þeirra á meðal eitt barn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert