Foreldrar eyðileggi dúkkuna

Cayla og appið sem fylgir.
Cayla og appið sem fylgir. YouTube

Þýska fjarskiptaeftirlitið hefur ráðlagt foreldrum að eyðileggja svokallaðar Cayla-dúkkur þar sem tölvuþrjótar geta notað sér óöruggan bluetooth-búnað dúkkunnar til að hlusta á og tala við börnin.

Framleiðandi Caylu hefur ekki tjáð sig um viðvörun Bundesnetzagentur en dreifingaraðilinn Vivid Toy Group hefur áður sagt að tilfelli þar sem dúkkan hefur verið „hökkuð“ hafi verið einangruð og framkvæmd af sérfræðingum.

Fyrirtækið segist munu hafa ábendinguna í huga þar sem hægt er uppfæra búnaðinn í dúkkunni en sérfræðingar segja vandamálið ekki hafa verið lagað.

Cayla getur svarað spurningum með því að tengjast internetinu. Ef barn spyr t.d. „hvað kallar þú lítinn hest?“ getur dúkkan svarað „folald“.

Neytendasamtök í Evrópu og Bandaríkjunum hafa kvartað vegna dúkkunnar en auk þess að vera viðkvæm fyrir gagnaþjófnaði hefur verið sýnt fram á að hægt er að nota búnaðinn í dúkkunni til að tala við þann sem leikur sér með hana.

Talsmaður fjarskiptaeftirlitsins sagði í samtali við Sueddeutsche Zeitung að dúkkan flokkaðist til „dulins fjarskiptabúnaðar,“ sem er ólöglegur samkvæmt þýskum lögum.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert