„Pabbi, haltu á mér, pabbi!“

Drengurinn missti báða fæturna í árásinni.
Drengurinn missti báða fæturna í árásinni. Skjáskot/CNN

„Pabbi, haltu á mér, pabbi!“ hrópar ungur drengur eftir að hafa misst báða fætur í sprengjuárás í Sýrlandi í gær. Á myndbandi sem sagt er vera af árásinni má sjá umkomulaust barnið, baðað blóði, hrópa í örvæntingu á hjálp. Fótleggir hans tættust af við hné.

Myndbandinu hefur verið dreift á samfélagsmiðlum og segja mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights að þau sýni afleiðingar loftárásar sýrlenska hersins í Idlib í norðvesturhluta landsins.

Sýrlandsstjórn hefur ekki staðfest árásina en myndbandinu er dreift af andstæðingum hennar, að því er fram kemur í frétt CNN um málið.

Litli drengurinn, Abdul Bassit Al-Satouf, er sagður hafa lifað árásina af og sé nú kominn undir læknishendur á sjúkrahúsi.

Fréttir herma að fimm hafi farist í árásinni. Fjöldi árása hefur verið gerður í Idlib á síðustu dögum. Aðgangur fréttamanna að svæðinu er lítill og því eru staðreyndir, s.s. um mannfall, oft á reiki.

Idlib hefur verið yfirráðasvæði uppreisnarmanna og andstæðinga Sýrlandsstjórnar frá því árið 2015.

Talið er að 250 þúsund börn búi á helstu átakasvæðum Sýrlands um þessar mundir.

mbl.is varar við myndskeiðinu hér að neðan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert