Neitar að gefast upp

François Fillon er frambjóðandi Les Republicains í frönsku forsetakosningunum.
François Fillon er frambjóðandi Les Republicains í frönsku forsetakosningunum. AFP

Forsetaframbjóðandi repúblikana í Frakklandi, François Fillon, ætlar að halda framboðinu til streitu þrátt fyrir vera mögulega ákærður fyrir að hafa útvegað konu sinni starf á vegum þingsins og hún fengið greitt fyrir það án þess að sinna því. Þetta kemur fram í viðtali við Fillon í Le Figaro í dag. 

Frambjóðandi Front National (FN) Marine Le Pen.
Frambjóðandi Front National (FN) Marine Le Pen. AFP

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi þjóðernisflokksins Front National, brást ókvæða við í gær við fréttum að hún hafi gerst sek um svipaða hluti með því að skrá lífvörð sinn sem aðstoðarmann á Evrópuþinginu.  

„Þetta óskammfeilin lygi. Ég myndi aldrei taka þátt í neinu slíku,“ sagði Le Pen í viðtali við France Bleu-útvarpsstöðina í gær. 

Á fimmtudag birtu tvær franskar fréttastofur útdrátt úr skýrslu sem unnin var af eftirlitsstofnun Evrópusambandsins með fjársvikum (OLAF) en þar kemur fram að Le Pen hafi viðurkennt að hafa greitt lífverði sínum, Thierry Legier, úr sjóðum Evrópuþingsins án heimildar. 

Evrópuþingið hefur sakað Le Pen um að hafa svikið út 350 þúsund evrur úr sjóðum þess. Til að mynda hafi verið greiddar tæplega 42 þúsund evrur til Legier árið 2011 þar sem hann var ranglega skráður sem starfsmaður þingsins. Samkvæmt skýrslu OLAF viðurkenndi Le Pen að Legier hafi aldrei fengið féð heldur hafi þetta verið hennar leið til þess að fá greidd laun og kostnað sem hún hafi átt inni.

Svipaðar ásakanir eru á hendur Le Pen varðandi launagreiðslur til Catherine Griset sem var starfsmaður Front National í París á árunum 2010-2016. Ekki hefur farið mikið fyrir fréttum af fjármálum Le Pen í kosningabaráttunni enda hærri fjárhæðir sem talið er að Fillon-hjónin hafi svikið út úr ríkinu. Eiginkona hans, Penelope, fékk greiddar að minnsta kosti 680 þúsund evrur fyrir aðstoðarmannastarf hjá franska þinginu á fimmtán ára tímabili. Allt bendir til þess að hún hafi ekki sinnt starfinu og að um fjársvik sé að ræða. Fillon neitar ásökunum en hefur beðist afsökunar. 

Frambjóðandi En Marche, Emmanuel Macron.
Frambjóðandi En Marche, Emmanuel Macron. AFP

Fillon hafði áður ýjað að því að hann myndi draga sig í hlé úr baráttunni kæmi til ákæru. En í viðtalinu í dag talar hann um ófrægingarherferð gagnvart sér. „Ég veit ekki hver það er en ég sé hver er að græða á því,“ segir Fillon. 

Ásakanir á hendur honum hafa heldur betur tekið sinn toll af fylgi hans en samkvæmt nýrri könnun Ipsos Sopra Steria er hann í þriðja sæti í fyrri umferðinni með 18,5% fylgi.

Könnunin var birt í Le Monde og samkvæmt henni er Le Pen með mest fylgi eða 26% og miðjumaðurinn Emmanuel Macron í öðru með 23%. Frambjóðandi sósíalista, Benoît Hamon, er í fjórða sæti með 14,5%.

Frambóðandi sósíalista, Benoît Hamon.
Frambóðandi sósíalista, Benoît Hamon. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert