Börnin jafnhungruð og fyrr

Grátur hungraðra barna rýfur kyrrðina í dagrenningu í frumskógum Kólumbíu þar sem þúsundir fjölskyldna hafa þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka. Þrátt fyrir nýlegt friðarsamkomulag stjórnvalda og skæruliða hefur staða þeirra lítið breyst. Börnin eru enn jafnhungruð enda engan mat að fá. 

Enn er barist um yfirráð yfir landi og eiturlyfjaframleiðslu á sama tíma og skelfingu lostnir heimamenn svelta til bana. „Það er enginn matur hér,“ segir John Hamilton Sagugara, kennari í Tasi. Hann segir marga þjást af uppköstum, niðurgangi og séu með hita. 

Mariluz Dari segir það sama en hún er sjö barna móðir og það yngsta enn á brjósti. Barn sem hefur verið veikt í þrjár vikur. Nakin börn með þaninn kvið vegna hungursneyðar ráfa um á moldarstígum milli timburkofanna. 

Bæjaryfirvöld segja að tvö börn hafi látist á síðasta ári úr sjúkdómum sem rekja megi beint til vannæringar.

Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir aðkomu sína að friðarsamkomulaginu við skæruliðahreyfinguna FARC. Samkomulag um að binda enda á langvinnasta stríð í Ameríku. 52 ár eru síðan skæruliðar tóku upp vopn í landinu. Frá því átökin hófust árið 1964 með stofnun uppreisnarhreyfingarinnar hafa 260 þúsund manns látið lífið í þeim, 6,8 milljónir manna flosnað upp og 45 þúsund manna er saknað.

Friðarviðræður eru einnig hafnar við annan hóp skæruliða, ELN, en þrátt fyrir það segja heimamenn að átökin standi enn yfir og skæruliðsamtökin ELN standi traustum fótum, segir Dayro Palacios, embættismaður í Pie de Pato, höfuðstað Chocó-héraðs. Hann segir ELN reyna að ná yfirráðum yfir eiturlyfjaviðskiptum og það þýðir endalaust stríð um yfirráðasvæði.

Átökin hafa neytt hundruð íbúa til að yfirgefa heimili sín skammt frá Upper Baudo-ánni og hafa þeir komið sér fyrir í nágrannasveitarfélögum. En þar býr fólkið við sára neyð og yfirleitt er ekkert annað í boði en bananar. 

Íbúarnir voru vanir því að rækta korn, hrísgrjón og mjölbanana. Eins voru þeir með svín og hænur. En ekki lengur því þeir eiga ekkert heimili lengur og hvað þá jarðnæði. Eiturlyfin skila meiru og því landið freistandi fyrir glæpagengi. Íbúarnir hafast því við í sárri neyð í frumskóginum.

Í janúar réðust vopnaðir skæruliðar á fund leiðtoga íbúanna og hótuðu að drepa þá alla. Þeir sökuðu fólkið um að starfa með hernum og það er dauðasök í huga skæruliða. 

Það er því ekki bara hungrið sem fólkið í skóginum glímir við heldur einnig ótti um að vera drepið af skæruliðum. Þeim sömu og hröktu það af heimilum sínum fyrir tveimur árum. 

Skammstöfunin FARC stendur fyrir Byltingarher Kólumbíu. Mikillar tortryggni gætir meðal almennings í landinu í garð samtakanna eftir hálfrar aldar blóðsúthellingar. Margir hafa áhyggjur af því að liðsmenn þeirra muni eiga erfitt með að snúa baki við ofbeldinu. Þeir kunni ekki annað. Margir þeirra muni jafnvel ganga til liðs við glæpaflokka í landinu.

Frelsisher Kólumbíu ("Ejército de Liberación Nacional") hefur nokkur þúsund vígamenn á sínum snærum. Þessi hreyfing var stofnuð árið 1965 og fóru þar fremstir menntamenn, sem heillast höfðu af byltingunni á Kúbu. 

Alto Baudo í Kólumbíu.
Alto Baudo í Kólumbíu. AFP
Þorpið Tasi í Alto Baudo.
Þorpið Tasi í Alto Baudo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert