Smá misskilningur hér á ferð

Bouche à Oreille í Bourges.
Bouche à Oreille í Bourges. Af Facebook-síðu staðarins

Kaffihús í Mið-Frakklandi varð allt í einu miðpunktur athyglinnar og í stað fastagesta voru gestirnir matgæðingar og sjónvarpsfréttamenn. Ástæðan var einföld – Michelin hafði fyrir mistök gefið kaffihúsinu eina stjörnu.

Fastagestum brá í brún þegar þeir mættu á kaffihúsið sitt, Bouche à Oreille, þar sem þangað streymdi múgur og margmenni í heimatilbúið lasagne og nautapottrétt (bœuf bourguignon). Réttir dagsins kosta um 10 evrur og dúkarnir eru rauðköflóttir plastdúkar. 

Þegar mistökin voru ljós baðst Michelin Guide afsökunar. Starfsmenn þeirra höfðu einfaldlega ruglað saman tveimur stöðum sem bera sama nafn. Sá sem átti að fá eina stjörnu er skammt fyrir utan París og matseðillinn aðeins flóknari og um leið dýrari. Það tók hins vegar tvo daga að leiðrétta listann á vef Michelin.

Véronique Jacquet, sem rekur kaffihúsið, segir í samtali við Telegraph að flestir viðskiptavina hennar séu smákaupmenn og iðnaðarmenn. En allt í einu hafi staðurinn fyllst af fréttamönnum og öðrum. Sonur hennar, sem býr í París, hringdi í hana til að láta vita um misskilninginn og sá hafi nánast gefið upp öndina svo mikið hló hann.

Hinn Bouche à Oreille-staðurinn er í Boutervilliers ekki Bourges og þar eru stífaðir dúkar á borðum og boðið upp á rétti eins og kálfaheila, humarhala og súkkulaðiperur á 48 evrur. Kampavín fylgir með rétti dagsins. 

Aymeric Dreux, yfirmatreiðslumaðurinn þar, segir í samtali við Le Parisien að hann hafi hringt í frú Jacquet í Bourges og þau hafi hlegið dátt að misskilningnum.

Penelope Salmon sem stýrir eldhúsinu hjá Jacquet segir að hana hafi aldrei dreymt um að fá Michelin-stjörnu. „En ég set hjarta mitt í eldamennskuna.“

Telegraph

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert