Stjórnvöld á bak við morðið

Myndir af þeim sem grunaðir eru um morðið á flugvellinum, …
Myndir af þeim sem grunaðir eru um morðið á flugvellinum, Muhammad Farid Bin Jalaluddin, sem er frá Malasíu, Doan Thi Huong, frá Víetnam, Ri Jong Chol, frá Norður-Kóreu, og Siti Aisyah frá Indónesíu. AFP

Rannsókn malasísku lögreglunnar sýnir fram á að stjórnvöld í Norður-Kóreu standa á bak við morðið á hálfbróður leiðtoga landsins, Kim Jong-Nam. Þetta segir talsmaður stjórnvalda í S-Kóreu.

Lögreglan í Malasíu hefur handtekið konu frá N-Kóreu og leitar fjögurra annarra sem fóru frá Malasíu á mánudag, daginn sem eitrað var fyrir Kim Jong-Nam á flugvellinum í Kuala Lumpur. 

Jeong Joon-Hee, talsmaður samræmingarráðuneytis Suður-Kóreu, segir að á grundvelli margvíslegra upplýsinga séu stjórnvöld í Seúl sannfærð um að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu á bak við morðið. Hann neitaði að skýra mál sitt frekar við fréttamenn í morgun en ítrekar að yfirvöld í nágrannaríkinu hafi gerst sek um hryðjuverk og glæpi gegn mannkyninu í gegnum tíðina.

Jong-Nam, hálfbróðir Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, lést eftir að vökva var sprautað í andlit hans á flugvellinum á mánudag. Stjórnvöld í S-Kóreu segja að árásin hafi verið gerð af norðurkóreskri konu sem er njósnari og hafi framið morðið að kröfu stjórnvalda í heimalandinu.

Malasíska lögreglan hélt blaðamannafund í dag þar sem fram kom að lögreglan telur að fimm Norður-Kóreubúar eigi aðild að morðinu. Fjórir þeirra hafi flúið land sama dag og morðið var framið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert