„Við höfum reynt allt“

Sundmaðurinn Grant Hackett.
Sundmaðurinn Grant Hackett. AFP

Er ástralski sundmaðurinn Grant Hackett búinn að brenna allar brýr að baki sér? Þetta er spurning sem ýmsir spyrja sig þessa dagana eftir að hann var handtekinn dauðadrukkinn og viðskotaillur á heimili foreldra sinna og lét sig síðan hverfa þannig að lýsa þurfti eftir honum í fjölmiðlum. 

Aðeins nokkrum klukkutímum eftir að fjölskyldan lét lýsa eftir Hackett tilkynntu þau um að hann væri kominn fram – heill á húfi og allsgáður. Sem er eitthvað sem ekki gerist oft undanfarin misseri.

Grant Hackett.
Grant Hackett. Instagram

Grant Hackett birti á fimmtudag mynd af sér á Instagram þar sem hann sakaði eldri bróður sinn, Craig, um að hafa barið sig í klessu. Craig hefur hingað til verið einn helsti stuðningsmaður bróður síns og staðið með honum í gegnum þykkt og þunnt en nú er hann búinn að fá nóg líkt og aðrir. 

Að sögn Craig eru foreldrar þeirra taugahrúga enda ástandið viðvarandi og það eina sem þau geti gert er að vonast til þess að Grant fái þá aðstoð sem hann þurfi á að halda. „Við höfum reynt allt. Fjölskyldan hefur reynt árum saman,“ sagði Craig við fjölmiðlamenn á heimili fjölskyldunnar eftir að Grant var handtekinn. 

Hefur verndað litla bróður allt frá barnæsku

Að sögn fjölskylduvina hefur Craig verndað Grant, sem er sex árum yngri, allt frá því í barnæsku. Það var hann sem kom honum í meðferð til Bandaríkjanna fyrir rúmum tveimur árum þegar hann var fárveikur af misnotkun lyfja. 

Faðir þeirra, Neville, segir að fjölskyldan óttist um að Grant fari sér að voða en þeim sé létt eftir að hann lét vita af sér og var allsgáður þegar það var. Hann hafi sagt við lögregluna að hann vildi fá að vera í friði frá öllum. Að öllum líkindum skammist Grant sín fyrir framkomu sína undanfarna daga. Eða eins og Craig segir – þetta er ekki sami Grant og ég þekkti. Þetta er einhver allt önnur manneskja. „Ég þekki ekki þessa manneskju og ekki foreldrar okkar,“ sagði Craig fyrr í vikunni. 

Grant Hackett.
Grant Hackett. AFP

Þegar Hackett var látinn laus úr haldi lögreglu á miðvikudag muldraði hann nokkur orð við fréttamenn og sagði að sér liði illa og hann þyrfti líklega að fara í meðferð. 

Hackett hætti keppni eft­ir Ólymp­íu­leik­ana í Pek­ing árið 2008 þar sem hann vann gull­verðlaun­in í 1.500 metra skriðsundi en það gerði hann líka í Syd­ney árið 2000 og í Aþenu fjór­um árum síðar. Hann reyndi að komast í lið Ástralíu fyrir Ólympíuleikana í Ríó í fyrra en tókst ekki að ná settu lágmarki liðsins. Ef hann hefði keppt í Ríó hefði hann orðið elsti sundmaðurinn til þess að keppa fyrir hönd Ástralíu á Ólympíuleikum en Hackett er 36 ára að aldri.

Forseti ástralska ólympíusambandsins, John Coates, og Sundsamband Ástralíu hafa lýst yfir vilja til þess að styðja við bakið á sundmanninum sem átti heimsmetið í 1.500 metra skriðsundi um tíma.

„Við höfum áhyggjur af velferð Grants,“ segir Coates. „Þetta er ekki sá Grant sem við þekkjum og virðum.“

„Grant er frábær ólympíumeistari, einn af fremstu sundmönnum allra tíma. Við vonum að hann nái tökum á þeim áskorunum sem hann stendur frammi fyrir,“ segir Coates.

Í svipaðan streng tekur framkvæmdastjóri Sundsambands Ástralíu, Mark Anderson, en hann segir að sambandið sé boðið og búið til þess að veita Grant og fjölskyldu hans alla þá aðstoð og stuðning sem þau þurfi á að halda.

Grant Hackett.
Grant Hackett. Wikipedia/Sarah Ewart

Svo virðist sem allt hafi farið á versta veg í lífi hans fljótlega eftir að hann hætti keppni árið 2008. Mikil áfengis- og lyfjaneysla var áberandi í fréttaflutningi af honum, erfiður skilnaður og heimilisofbeldi var það sem helst fréttist af sundmanninum næstu árin. 

Fyrrverandi félagi hans úr sundinu, Libby Trickett, segir að það sé meira en að segja það að breyta algjörlega um takt í lífinu eins og gerist þegar keppnismaður hættir keppni. Hún segist vonast til þess að hann fái það næði sem hann þurfi á að halda og stuðning fjölskyldunnar að fá lækningu við þeim veikindum sem hrjái hann greinilega.

„Ég tel að fólk verði að gefa honum nægt svigrúm og tíma til þess að ná heilsu. Því þetta eru andleg veikindi,“ segir Trickett og bætir við að hún vonist til þess að fjölskyldan haldi honum utan kastljóss fjölmiðla á næstunni svo hann fái frið fyrir ágangi þeirra.

Foreldrarnir komnir í þrot

Heimildir Telegraph innan úr fjölskyldu Hackett segja að foreldrar hans, Neville og Margaret, séu komin í þrot og það hafi í raun verið neyðaróp af hálfu Neville, sem er lögregluvarðstjóri á eftirlaunum, að óska eftir aðstoð lögreglu á miðvikudag. Þá hafði Neville reynt að sannfæra son sinn um að fara í meðferð. Vonaðist hann til þess að nokkrir klukkutímar í fangaklefa myndu koma vitinu fyrir hann.

Margaret Hackett hefur í gegnum tíðina verið helsti bandamaður Grants og er hún sú eina úr fjölskyldunni sem hann hefur samband við. Hann hefur hins vegar bara sent henni stutt skilaboð í síma en ekki viljað hitta hana frekar en aðra í fjölskyldunni. Hún biður son sinn um að koma aftur heim og segir að þau séu heima og alltaf til staðar fyrir hann. 

Grant Hackett.
Grant Hackett. AFP/Getty Images

Grant Hackett hefur enn ekki viljað fara að óskum fjölskyldunnar um að skrá sig inn á meðferðarstofnun en heldur til á hóteli. 

Hackett hefur lengi glímt við fíkn og eru það einkum róandi og svefnlyf sem hann leitar í. Ekki er ljóst hvenær hann hitti börn sín síðast og stutt ástarsambönd undanfarin ár hafa síst orðið til þess að minnka áhyggjur fjölskyldunnar af velferð hans og baráttunni við „djöflana“ eins og hann kallar lyfin sem hann á erfitt með að vera án. 

Fjölskyldan bíður því nú á milli vonar og ótta um að Hackett sjái að sér og fari að ósk þeirra með að fara í meðferð bæði vegna glímunnar við fíknina sem og andlegrar vanlíðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert