Brexit í höndum lávarðanna

AFP

Lávarðadeild breska þingsins hefur í dag umfjöllun sína um lagafrumvarp ríkisstjórnar Theresu May forsætisráðherra, sem felur í sér heimild til þess að hefja formlega útgönguferli Bretlands úr Evrópusambandinu. Neðri deild þingsins samþykkti frumvarpið á dögunum fyrir sitt leyti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og var öllum breytingatillögum við það hafnað.

Lávarðadeildin er ekki kjörin og Íhaldsflokkur forsætisráðherrans hefur ekki meirihluta í henni, ólíkt neðri deildinni. Talið er að fyrir vikið gæti orðið erfiðara fyrir May að koma lagafrumvarpinu í gegnum lávarðadeildina. Ólíklegt er þó talið að reynt verði að stöðva frumvarpið. Hins vegar er búist við að reynt verði að breyta því í meðförum deildarinnar með breytingatillögum.

Frumvarpið var samþykkt í neðri deildinni með 494 atkvæðum gegn 122. Hins vegar hafa íhaldsmenn aðeins 252 fulltrúa í lávarðadeildinni af rúmlega 800. Breytingatillögur munu líklega snúast um réttindi ríkisborgara Evrópusambandsríkja í Bretlandi og hvernig breska þingið kjósi um endanlegan útgöngusamning í kjölfar viðræðna við Evrópusambandið.

Neðri deildin verði að eiga lokaorðið

Haft er er eftir Peter Mandelson, sem situr í lávarðadeildinni fyrir Verkamannaflokkinn og er fyrrverandi fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í frétt AFP að mikill stuðningur væri í lávarðadeildinni við slíkar breytingatillögur. Hann efaðist hins vegar um að lávarðadeildin myndi beita sér fyrir því að koma alfarið í veg fyrir að frumvarpið næði fram að ganga.

„Þegar allt kemur til alls verður neðri deildin að eiga lokaorðið þar sem hún er kjörin,“ sagði Mandelson við breska ríkisútvarpið BBC í gær. Hann vonaðist hins vegar til þess að lávarðadeildin myndi ekki láta undan síga of snemma. Samþykki lávarðadeildin breytingatillögur við frumvarpið fer það aftur til meðferðar hjá neðri deildinni.

Gert er ráð fyrir að lávarðadeildin afgreiði frumvarpið frá sér 7. mars en ríkisstjórn May stefnir að því að hefja formlega útgönguferlið í lok mars. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti útgöngu úr Evrópusambandinu, sem nefnd hefur verið Brexit, í þjóðaratkvæði í júní. Reiknað er með að Bretland kunni að ganga formlega úr sambandinu á árinu 2019.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert