Hillir undir endalok 40 ára flótta?

Roman Polanski vonast til þess að geta snúið heim og …
Roman Polanski vonast til þess að geta snúið heim og langar m.a. að heimsækja gröf Sharon Tate, eiginkonunnar sem var myrt af Charles Manson og fylgismönnum hans. AFP

Leikstjórinn Roman Polanski freistar þess nú að fá trúnaði aflétt af vitnisburði sem hann segir færa sönnur á að hann hafi þegar afplánað umsaminn fangelsisdóm vegna kynferðisofbeldis gegn 13 ára stúlku árið 1977. Polanski hefur ekki getað ferðast til Bandaríkjanna í nærri 40 ár, þar sem handtökuskipun gegn honum er enn í gildi.

Polanski dvaldi 42 daga í fangelsi á sínum tíma en lögmaður hans í Bandaríkjunum segir vitnisburð saksóknarans í málinu sanna að leikstjórinn hafi verið búinn að semja um að afplána aðeins 48 daga fyrir glæpinn.

Beiðni Polanski um að trúnaði verði létt af vitnisburðinum verður tekin fyrir í næstu viku en eðli málsins samkvæmt veður leikstjórinn ekki viðstaddur.

Polanski var ákærður fyrir að byrla hinni 13 ára gömlu Samönthu Gailey, sem nú ber eftirnafnið Geimer, ólyfjan og nauðga henni á heimili leikarans Jack Nicholson í Los Angeles árið 1977. Nicholson lék aðalhlutverkið í einni frægustu mynd Polanski, Chinatown.

Leikstjórinn, sem er fæddur í París og hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, játaði að hafa haft kynmök við einstakling undir lögaldri og var sem fyrr segir fangelsaður í 42 daga í Chino State-fangelsinu áður en honum var sleppt.

Kynferðisofbeldið átti sér stað á heimili Jack Nicholson, sem lék …
Kynferðisofbeldið átti sér stað á heimili Jack Nicholson, sem lék aðalhlutverkið í Chinatown, einni frægustu mynd Polanski.

Árið 1978 sannfærðist Polanski um að dómari hygðist snúa samkomulaginu sem hann hafði gert við ákæruvaldið og fella yfir sér langan fangelsisdóm. Hann flúði þá til Frakklands.

Hann var handtekinn í Sviss árið 2009 eftir að þarlendum yfirvöldum barst framsalsbeiðni frá Bandaríkjunum og varði 10 mánuðum í stofufangelsi áður en yfirvöld í Bern höfnuðu umleitan Bandaríkjamanna.

Stjórnvöld vestanhafs freistuðu þess einnig að fá Polanski framseldan frá Póllandi í janúar 2015 en hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu í desember að hann hefði afplánað dóm sinn samkvæmt samkomulaginu við bandaríska ákæruvaldið.

„Öryggi í eigin heimalandi“

Harland Braun, lögmaður Polanski í Bandaríkjunum, segir vitnisburð saksóknarans Roger Gunson frá 2010 færa sönnur á fullyrðingar leikstjórans þess efnis að hann hafi samið við ákæruvaldið um 48 daga fangelsisdóm.

Gunson mun freista þess að fá bandaríska dómstóla til að viðurkenna niðurstöðu pólska hæstaréttarins, þar sem bandaríska ákæruvaldið kom þar að málum.

Skjáskot úr The Pianist, sem fjallar um ungan tónlistarmann sem …
Skjáskot úr The Pianist, sem fjallar um ungan tónlistarmann sem reynir að komast undan nasistum í Varsjá.

Eftir að dómur féll í Póllandi sagði Polanski í samtali við fréttastöðina TVN24 að hann fagnaði því að málinu væri nú lokið. „Mín eina eftirsjá er að hafa þurft að bíða svo lengi. Ég mun loksins upplifa öryggi í eigin heimalandi.“

Kattar- og músarleikur Polanski og bandarískra yfirvalda hefur staðið yfir í áratugi en þeir sem hafa fylgst með skiptast í tvær fylkingar; þær sem vilja sjá hann gjalda fyrir glæpinn og þá sem vilja fyrirgefa.

Harmur í æsku og á fullorðinsárum

Polanski fæddist í París árið 1933 en foreldrar hans voru pólskir gyðingar sem fluttu fjölskylduna aftur heim til Póllands. Þar fylgdist Polanski með foreldrum sínum vera handtekna af nastistum í gettóinu í Krakow og senda í útrýmingarbúðir.

Barnungur ráfaði Polanski um sveitir landsins og naut aðstoðar kaþólskra fjölskyldna. Reynsla hans léði kvikmyndinni The Pianist trúverðugleika en hún fjallar um ungan tónlistarmann sem reynir að komast undan nasistum í Varsjá.

Leikstjórinn flutti til Hollywood árið 1968 og sló fyrst í gegn með kvikmyndinni Rosemary's Baby, þar sem Mia Farrow fór með hlutverk þungaðrar konu sem gengur með afkvæmi djöfulsins.

Fjölskyldugrafreitur Tate-fjölskyldunnar.
Fjölskyldugrafreitur Tate-fjölskyldunnar. Wikipedia/IllaZilla

Polanski átti þó enn eftir að upplifa harmleik, þegar ólétt eiginkona hans, fyrirsætan og leikkonan Sharon Tate, og fjórir vinir voru myrt á heimili leikstjórans af Charles Manson og fylgismönnum hans.

Bugaður fluttist Polanski til Evrópu en sneri aftur og gaf út hina víðfrægu Chinatown, sem hlaut 11 Óskarstilnefningar.

Polanski hefur haldið sig frá Bandaríkjunum frá því hann flúði þaðan 1978 og var fjarri góðu gamni þegar hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir The Pianist.

Sjálf hefur Geimer kallað eftir því að málið verði látið niður falla og hefur sagt að hin mikla fjölmiðlaumfjöllun gegnum árin hafi gert fórnarlamb úr Polanski í máli sem hún vildi að heyrði fortíðinni til.

Polanski hefur sagt að hann langi til að heimsækja gröf Tate í Los Angeles. Þá hefur hann ekki getað heimsótt dóttur sína í Lundúnum vegna ásækni bandarískra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert