Kölluðu sendiherrann heim frá Norður-Kóreu

Fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il ásamt elsta syni sínum, Kim …
Fyrrverandi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il ásamt elsta syni sínum, Kim Jong-Nam. Skjáskot/CNN

Stjórnvöld í Malasíu hafa kallað erindreka sinn í Norður-Kóreu heim vegna stigvaxandi deilna ríkjanna í kjölfar morðsins á Kim Jong-Nam, hálfbróður Kim Jong-Un leiðtoga Norður-Kóreu, að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Kim Jong-Nam lést á flugvellinum í Kuala Lumpur í síðustu viku, eftir að eitrað hafði verið fyrir hann þar sem hann beið eftir flugi til Kína.

Lögreglan í Malasíu hefur greint frá því að hún leiti nú fjögurra Norður-Kóreubúa vegna málsins. Þá hafa yfirvöld einnig kallað Kang Chol, sendiherra Norður-Kóreu í Malasíu á sinn fund vegna ummæla sem hann lét falla um málið. Sakaði Kang yfirvöld í Malasíu um að hafa eitthvað að fela og hafa þau ummæli vakið mikla reiði í Malasíu.

Grunur leikur á að stjórnvöld í Norður-Kóreu standi að baki morðinu á Kim Jong-Nam. Engar sannanir þess efnis hafa þó fundist og norður-kóresk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um lát hálfbróðurins.

Malasíska lögreglan hefur þegar í haldi einn Norður-Kóreubúa, Ri Jong-Chol, en segist nú leita fjögurra karla sem þegar kunni að hafa yfirgefið landið. Þá hafa tvær konur, önnur indónesísk og hin víetnömsk, einnig verið handteknar vegna málsins.

Malasía er eitt fárra ríkja sem enn á í stjórnmálatengslum við Norður-Kóreu. Morðið á Kim Jong-Nam hefur þó reynt allverulega á samband ríkjanna. Þannig neituðu stjórnvöld í Malasíu í síðustu viku að afhenda norður-kóreskum yfirvöldum lík Kim Jong-Nam án þess að krufning hefði farið fram.

Talsmaður malasíska utanríkisráðuneytisins segir erindrekann í Norður-Kóreu hafa verið kallaðan heim til „skrafs og ráðagerða“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert