Engin stungusár á líki Kims

Bræðurn­ir voru ekki sam­rýmd­ir (f.v.) Kim Jong-Nam og Kim Jong-Un, …
Bræðurn­ir voru ekki sam­rýmd­ir (f.v.) Kim Jong-Nam og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Kim Jong-Nam fékk ekki hjartaáfall og á líki hans fundust engin stungusár. Það er talið útiloka þá kenningu að hann hafi verið stunginn á flugvellinum Kuala Lumpur með eitruðum nálum.

Þetta er meðal niðurstaðna krufningar á líki hans, sem framkvæmd var á sjúkrahúsi í Malasíu. Niðurstöðurnar voru kynntar á fjölmennum blaðamannafundi í líkhúsinu. Ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins sagði á fundinum að dánarorsök yrði ekki uppgefin fyrr en endanlegar niðurstöður úr eiturefnaprófunum lægi fyrir.

Tuska borin að vitum hans

Stjórnvöld í Suður-Kóreu telja að Kim, sem er eldri bróðir Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi verið myrtur. Telja þau að fyrir hann hafi verið eitrað og að bróðir hans standi að baki morðinu.

Kim Jong-Nam fór að finna fyrir óþægindum í öndunarvegi á flugvellinum í Kuala Lumpur. Hann var þá að bíða eftir flugi til Macau, sjálfstjórnarsvæðis í Kína, þar sem hann hefur dvalið undanfarin ár. Kim sagði við tollvörð á flugvellinum að tvær konur hefðu haldið tusku að vitum sínum. Í gær voru birtar upptökur úr eftirlitsmyndavélum af flugvellinum sem þykja styðja þá frásögn hans.

Fjórir hafa verið handteknir í tengslum við morðið, þar af tvær konur. Önnur þeirra segist hafa haldið að hún væri að taka þátt í gerð grínþáttar.

Yfirvöld í Malasíu hafa óskað eftir því að ættingjar Kims komi þangað til að bera kennsl á líkið. Það hafa þeir ekkert gert. Norðurkóresk yfirvöld hafa hins vegar farið fram á að fá líkið afhent. Á það hefur enn ekki verið fallist.

Andar köldu

Kulnun hefur orðið í samskiptum Malasíu og Norður-Kóreu af þessum sökum. Sendiherra Norður-Kóreu hefur m.a. opinberlega sakað malasísk yfirvöld um að „vinna með óvininum“ við rannsókn á andláti Kims Jong-Nam og átti þar við suðurkóresk yfirvöld.

Kim var elsti sonur Kims-Jong-Il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu. Samband þeirra feðga versnaði skyndilega árið 2001, mögulega vegna ferðar Kims til Japans en þangað reyndi hann að komast á fölsuðum ferðaskilríkjum til að heimsækja Disneyland.

Kim hefur talað fyrir umbótum í heimalandi sínu og það hefur fallið í grýttan jarðveg hjá yngri bróður hans, Kim Jong-Un. Þá hefur Kim eldri notið verndar kínverskra yfirvalda frá því að hann fór í útlegð og er af þeim talinn réttmætur arftaki valdastólsins í Norður-Kóreu. Þetta hugnaðist litla bróður ekki. Kenningin er því sú að þetta sé ástæðan fyrir því að hann lét ráða hann af dögum.

Frétt CNN um krufningarskýrsluna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert