Gengu berserksgang í Rinkeby

Átök brutust út milli glæpagengis og lögreglunnar í Rinkeby í …
Átök brutust út milli glæpagengis og lögreglunnar í Rinkeby í Svíþjóð í gærkvöldi. Ljósmynd/Nyheter24

Hópur ungmenna gekk berserksgang á torgi í Rinkeby í Svíþjóð í gærkvöldi. Hópurinn kveikti í bílum, braut rúður á veitingastöðum og verslunum og rændi og ruplaði. Mikil ólga er í bænum eftir atvikið þar sem lögreglan er sökuð um að skerast ekki strax í leikinn. Dagens Nyheter greinir frá.

„Fólk hefði getað dáið,“ segir Chaima Hakam, búðareigandi á torginu. Hann ákvað að grípa sjálfur til aðgerða og reyndi að stöðva hópinn sem veittist að honum og lét höggin dynja á honum þar sem hann lá í götunni. „Ég hringdi strax í 112 og lét lögregluna vita. Hún kom ekki. Seinna frétti ég að lögreglumennirnir hefðu setið inn í bílunum sínum og horft á aðgerðalausir. Það er ótrúlegt að þeir hafi ekki gert neitt á meðan stríðsástand ríkti á torginu,“ segir Cahima Hakam. 

Ljósmyndari DN fór á staðinn til að mynda atvikið en var barinn. Nokkrir drengir í hópnum tóku myndavélina hans en hann komst sjálfur við illan leik aftur í bílinn sinn, blóðgaður í andlitinu.    

Átökin brutust upphaflega út milli glæpagengis og lögreglunnar. Lögreglan reyndi að handtaka eftirlýstan mann en hópur fólks, svartklætt með grímur, stóð vörð um manninn og hóf að grýta lögregluna. Fljótlega bættust fleiri í hópinn. Lögreglan þurfti meðal annars að skjóta fjórum skotum til að ná stjórn á aðstæðunum. Ástandið varði í að minnsta kosti um fjórar klukkustundir. 

Svíþjóð hefur talsvert verið til umræðu undanfarna daga einkum eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, talaði óskýrt um „stöðuna“ þar.

Kveikt var í fjölda bíla sem voru á torginu í …
Kveikt var í fjölda bíla sem voru á torginu í Rinkeby í Svíþjóð í gærkvöldi. Ljósmynd/DN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert