Hvað er að gerast í Suður-Súdan?

Lítið lasið barn liggur á sjúkrahúsi sem rekið er með …
Lítið lasið barn liggur á sjúkrahúsi sem rekið er með stuðningi UNICEF í Juba, höfuðborg Suður-Súdans. Mörg börn þjást af vannæringu í landinu. Ljósmynd/UNICEF/Modola

Djúp efnahagskreppa hefur skapast í Suður-Súdan í kjölfar átakanlegrar borgarastyrjaldar sem þar hefur geisað í rúmlega þrjú ár. Í gær var lýst yfir hungursneyð í landinu. Hungursneyðin, sem er enn bundin við ákveðin landssvæði, er af mannavöldum.

Engin takmörk virðast vera fyrir þeim grimmdarverkum sem framin hafa verið í þessu yngsta ríki heims, oft án þess að þau komist í fréttirnar. Skýringin er m.a. sú að fréttamönnum er ekki óhætt í landinu. Innviðir þess eru að auki lélegir og laskaðir, m.a. samgöngur og fjarskipti. Við þessi skilyrði hefur stríðið og hrottalegt ofbeldið grasserað nokkuð óáreitt, á kostnað saklausra borgara, m.a. milljóna barna.

En hvernig skapaðist þetta hræðilega ástand?

Suður-Súdan fékk sjálfstæði frá Súdan árið 2011. Skömmu síðar braust …
Suður-Súdan fékk sjálfstæði frá Súdan árið 2011. Skömmu síðar braust borgarastríðið út. mbl

Aðeins nokkrum mánuðum eftir að Suður-Súdan fékk sjálfstæði árið 2011 braust út blóðug borgarastyrjöld í kjölfar þess að Salva Kiir forseti sakaði fyrrverandi varaforseta sinn, Riek Machar, um að hafa lagt á ráðin um að ræna völdum.

Tugþúsundir hafa fallið í valinn í átökunum, látist vegna sjúkdóma eða soltið í hel. Meira en þrjár milljónir manna hafa lagt á flótta. 

Ástandið í Suður-Súdan er flókið og ekki nýtilkomið. En nefna má nokkra þætti til sögunnar sem varpa vonandi ljósi á stöðuna.

Efnahagur í rúst

Frá því að Suður-Súdan fékk sjálfstæði frá Súdan fyrir fimm og hálfu ári hefur olíuframleiðsla, sem skapar 98% af ríkistekjum, dregist saman um meira en helming. Gríðarleg verðbólga er í landinu sem ríkisstjórnin hefur algjörlega misst tökin á.

Meirihluti þeirra olíuauðlinda sem áður tilheyrðu Súdan eru nú á landsvæði Suður-Súdans. Hins vegar eru allir innviðir til framleiðslu og dreifingar, s.s. olíuhreinsistöðvar og olíuleiðslur, í Súdan. Það þýðir að Suður-Súdanar eru háðir nágrönnum sínum í norðri við að flytja olíuna úr landi.

Í gær tilkynntu hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna að 4,9 milljónir Suður-Súdana væru við hungurmörk. Um 100 þúsund þeirra búa við hungursneyð. Sú tala mun hækka hratt á næstu vikum og mánuðum verði ekkert að gert.

Elizabeth Kegi með eins og hálfs árs gamalt barn sitt …
Elizabeth Kegi með eins og hálfs árs gamalt barn sitt fyrir nokkrum dögum á heilsugæslustöð í Juba, höfuðborg Suður-Súdans. Ljósmynd/UNICEF/Gonzalez Farran

Stríð milli norðurs og suðurs

Áður en Suður-Súdan fékk sjálfstæði var landsvæðið hluti af Súdan. Þar voru háðar tvær hrikalegar borgarastyrjaldir. Átökin voru flókin en voru fyrst og fremst á milli kristinna og andatrúarmanna í suðri og íbúa í norðri sem flestir voru múslimar og höfðu tögl og hagldir í stjórn landsins. Milljónir týndu lífi í þessum tveimur styrjöldum.

Sú fyrri braust út skömmu eftir að Súdan fékk sjálfstæði frá Bretum og Egyptalandi árið 1956. Þá risu íbúar suðursins upp gegn yfirráðum norðlendinganna. Friðarsamkomulag var loks gert árið 1972 sem batt endi á átökin sem þá höfðu staðið í sautján ár. Með samkomulaginu fengu íbúar í suðri nokkra sjálfsstjórn.

En árið 1983 rauf ríkisstjórnin í norðri samkomulagið og annað stríð milli landshlutanna braust út. Þá var á ný blásið í glæður sjálfstæðishreyfingar sem John Garang og skæruliðar hans fóru fyrir, Friðarher Súdana (SPLA).

Tvær borgarastyrjaldir áttu sér stað í Súdan frá því að …
Tvær borgarastyrjaldir áttu sér stað í Súdan frá því að landið fékk sjálfstæði frá Bretum og Egyptum árið 1956. Múslimar í Norður-Súdan vildu að íslam væri ríkistrú, arabíska ríkismál og að lög íslam ríktu í landinu öllu. Yfirvöldin börðust við kristna íbúa í suðurhluta landsins um yfirráðin. Þorkell Þorkelsson ljósmyndari Morgunblaðsins dvaldist í suðurhluta Súdan og myndaði ástandið árið 2000. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Í janúar árið 2005 undirritaði Garang friðarsamkomulag við stjórnvöld í höfuðborginni Kartúm sem fól í sér að íbúar í suðri voru undanþegnir sjaríalögum sem þá voru við lýði í landinu. Einnig fékk svæðið sex ára sjálfsstjórn þar til kosið yrði um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Garang lést í þyrluslysi nokkrum mánuðum síðar og við leiðtogahlutverki hans tók Salva Kiir.

Yngsta ríki veraldar

Þann 9. júlí árið 2011 lýsti Suður-Súdan svo yfir sjálfstæði sínu, sex mánuðum eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði farið fram. 98% þeirra sem tóku þátt vildu sjálfstæði frá norðurhluta Súdan. Kiir var settur í embætti fyrsta forseta landsins.

Alþjóðasamfélagið, með Bandaríkin, Kína, Rússland og Evrópusambandið í broddi fylkingar, viðurkenndi sjálfstæði þessa nýja Afríkuríkis fljótt.

Bandamenn verða óvinir

Kiir og Riek Machar voru bandamenn lengi. Þeir höfðu sameiginlegt markmið: Að koma á sjálfstæði Suður-Súdans. Þeir höfðu einnig hafið sig yfir deilur þjóðarbrota og átök þeirra þó að þeir tilheyrðu hvor sinni þjóðinni.

Í síðari borgarastyrjöldinni í Súdan gekk Machar, sem er Núeri, til liðs við Friðarher Súdana sem var á þeim tíma fyrst og fremst skipaður fólki af Dinka-þjóðinni, eins og Kiir. Ekki leið á löngu þar til Machar klauf sig frá Friðarhernum, og þar með Garang og Kiir, og stofnaði eigin hreyfingu. Á þeim tíma hallaði hann sér að stjórnvöldum í Súdan. En við upphaf fyrsta áratugar aldarinnar sameinaðist hreyfing hans Friðarhernum á nýjan leik.  

Það kom því fáum á óvart er Kiir útnefndi Machar sem varaforseta sinn, fyrst árið 2005 er landssvæðið fékk sjálfsstjórn frá Súdan og svo aftur árið 2011 er Suður-Súdan varð að veruleika.

Hætta á þjóðarmorði

Í desember árið 2013 braust svo út borgarastyrjöld í hinu unga ríki. Herinn skiptist í fylkingar

Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, dvaldist í suðurhluta Súdan árið 2000. …
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, dvaldist í suðurhluta Súdan árið 2000. Áratug síðar varð svæðið sjálfstætt ríki, Suður-Súdan. Þessa mynd tók hann í æfingabúðum kristinna uppreisnarmanna. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

en átökin má rekja til ósættis og tortryggni milli Kiir og Machar. Það væri mikil einföldun að segja að átökin séu á milli Núera og Dinka, þjóðarbrotanna sem þeir tilheyra, en þeir sækja þó stuðning sinn að miklu leyti til sinna þjóða.

Í ágúst árið 2015 var skrifað undir friðarsamkomulag milli stríðandi fylkinga. Það var svo rofið í júlí í fyrra er harka færðist enn á ný í átökin.

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu þá við hættu á þjóðarmorði og þjóðernishreinsunum eftir að hafa m.a. fengið upplýsingar um að nauðganir væru notaðar í hernaðinum og átök milli ólíkra þjóðarbrota væru að magnast.

Krókódílarnir skárri en hermennirnir

Hryllingurinn sem hefur átt sér stað í þessu litla landi er nánast ólýsanlegur. Einn fremsti pistlahöfundur og blaðamaður New York Times, Nicholas Kristof, er einn fárra fjölmiðlamanna sem hætti sér inn á svæðið í fyrra. Í grein sinni lýsti hann því hvernig Suður-Súdanar fela sig í fenjunum, innan um krókódíla og flóðhesta. „Þegar hermennirnir koma förum við út í vatnið alveg upp að hálsi og felum okkur. Aðeins nefið stendur upp úr vatninu,“ hafði Kristof eftir konu á flótta. „Þó að við deyjum í vatninu, það er betra að vera drepin af snákum eða krókódílum en hermönnunum.“

Hermenn, frá báðum fylkingum, fara um þorpin og brenna þau til kaldra kola. Þeir nauðga konunum og skjóta karlmennina eða þvinga þá til að ganga til liðs við sig. Því eru það fyrst og fremst konur og börn sem eru á vergangi vegna átakanna. 

Engum er óhætt, ekki einu sinni starfsmönnum hjálparsamtaka. Slík samtök sem og alþjóðastofnanir reyndu mörg hver á síðasta ári að forða starfsfólki úr landinu. Íbúarnir hafa hins vegar ekkert skjól fyrir grimmilegum átökunum og nú hungursneyðinni sem bæst hefur ofan á allt saman.

Nokkur samtök hafa þó ekki yfirgefið Suður-Súdan. Þeirra á meðal eru Læknar án landamæra og UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Kristof gagnrýndi í skrifum sínum í fyrra Barack Obama forseta og bandarísk yfirvöld fyrir að rétta ekki fram hjálparhönd við að leysa deiluna. Hann segir Bandaríkin í raun nokkurs konar ljósmóður þessa nýja ríkis, þau hafi stutt Kiir til valda, og beri því ábyrgð.

Mbl.is heimsótti flóttamannabúðir í Úganda í fyrra þar sem flóttafólk …
Mbl.is heimsótti flóttamannabúðir í Úganda í fyrra þar sem flóttafólk frá Suður-Súdan hefst við áður en það fær úthlutað landskika til að hefja nýtt líf. mbl.is/Kristín Heiða

„Ég varð að fara“

Um 1,5 milljónir Suður-Súdana hafa nú flúið land. Flestir fara til nágrannaríkisins Úganda sem þrátt fyrir veika innviði hefur að minnsta kosti hingað til tekið þeim opnum örmum, úthlutað þeim landskikum og opnað skóla sína.

Flóttafólkið kemur í stríðum straumum yfir landamærin, stundum nokkur hundruð  á dag. „Ég kom hingað vegna barnanna,“ sagði Helen Minga, 35 ára 11 barna móðir, í samtali við blaðamann mbl.is sem heimsótti flóttamannabúðir Suður-Súdana í Úganda í fyrra. Á ýmsu hafði þá gengið í lífi Helen. „Maðurinn minn var dreginn að víglínunni, ég átti enga peninga til að framfleyta börnunum. Ég varð að fara.“

Neyðin er síst minni í dag en hún var fyrir ári. Það er ómögulegt að segja hvar Helen er nú niðurkomin. Kannski fékk hún smá jörð og hefur getað byggt sér og börnunum sínum lítinn kofa með aðstoð annarra flóttamanna. Kannski sneri hún til heimalandsins í fyrrasumar, á meðan friðarsamkomulagið var virt og áður en átökin brutust út enn á ný.

Tugþúsundir annarra eru í hennar stöðu, hafa misst heimili sín og lífsviðurværi. Hafa fá tækifæri til menntunar þar sem innviðir Suður-Súdans eru fyrir löngu brostnir og möguleikar á bjartri framtíð takmarkaðir.

Flóttamannabúðir í Úganda og Eþíópíu eru að fyllast. Nýjum er sífellt bætt við en verulega reynir nú að þolrif þessara tveggja landa. Á aðeins hálfu ári þrefaldaðist fjöldi suðursúdanskra flóttamanna í Úganda. 

Meira en 60% alls þessa flóttafólks eru börn. Mörg þeirra eru verulega vannærð er þau koma í flóttamannabúðirnar. „Fólk sem er að koma þessa dagana segir sögur af miklum þjáningum í Suður-Súdan,“ segir William Spindler, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Það segir frá ofsafengnum átökum, mannránum, nauðgunum, ótta við vopnaða hópa, lífshættu sem og aðkallandi fæðuskorti.“

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna hungursneyðarinnar. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert