Hafði verið að skemmta sér um nóttina

Lögregla stöðvaði för bílsins í gær.
Lögregla stöðvaði för bílsins í gær. AFP

Svíinn sem stal pallbíl og keyrði á móti umferð í Barcelona í gær hafði verið að skemmta sér nóttina áður en atburðurinn átti sér stað. Lögreglan elti manninn og stöðvaði för hans, eftir að hún skaut í framrúðu pallbílsins.

Joakim Robin Berggren færður í varðhald eftir eltingaleikinn í gær. Fyrst um sinn var óttast að um svipaða árás væri að ræða og átti sér stað í Nice og Berlín í fyrra.

Fljótt kom þó í ljós að árásin var ekki skipulögð en líklega var hinn 32 ára gamli Svíi undir áhrifum þegar hann stal og ók pallbílnum.

Jordi Jane, sem stýr­ir inn­an­héraðsmá­l­um í Katalón­íu, sagði fréttamönnum að Berggren hefði verið úti á lífinu aðfaranótt þriðjudags.

„Hann eyddi miklum fjármunum og gerði hluti sem komu honum líklega í vímu í margar klukkustundir,“ sagði Jane.

Vitni segja að Berggren hafi sýnt af sér óstöðuga hegðun og hafi reynt að ræna nokkrum bílum áður en hann stal pallbílnum.

Þrír slösuðust minniháttar, þar á meðal kona sem varð fyrir gaskút sem féll af bílnum í eltingaleiknum.

Jane sagði að Svíinn hefði ekki slasast. Hann væri í varðhaldi og hefði verið ákærður fyrir að stela faratæki, ráðast á lögreglumenn og ofsaakstur sem olli skemmdum.

Berggren kom til Barcelona á mánudag frá Mosvku en þangað hafði hann ferðast frá Kaupmannahöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert