Frétt Fox lygi og útúrsnúningar

Tökumaðurinn sem tók hluta af myndskeiðinu um Svíþjóð fyrir bandaríska kvikmyndagerðarmanninn Ami Horowitz tekur undir með tveimur lögreglumönnum sem rætt er við í myndskeiðinu um að ummæli þeirra séu klippt til og tekin úr samhengi. Myndskeiðið hefur vakið mikla athygli eftir að í ljós kom að Donald Trump Bandaríkjaforseti var að vísa til þess þegar hann lýsti ástandinu í Svíþjóð.

Frétt mbl.is: Svíþjóðarfréttin var á Fox

Hluti af heimildarmynd Horowitz sem er birt á YouTube var sýndur á Fox News sjónvarpsstöðinni í síðustu viku. Þar kom fram að fjölgun innflytjenda í Svíþjóð hafi valdið fjölgun glæpa í landinu. Í myndskeiðinu koma fram tveir lögreglumenn og lýsa ástandinu. Þeir segja að Horowits hafi hins vegar spurt um eitthvað allt annað en það sem myndskeiðið endaði með að sýna. Það er að þeir hafi verið að svara allt öðru en því sem hann þykist síðan vera að spyrja þá að í myndskeiðinu.

„Þetta átti að snúast um glæpi á áhættusvæðum. Svæðum þar sem glæpatíðni er há. Athyglin beindist ekki að flóttafólki eða innflytjendum,“ segir Anders Göranzon í viðtali við Dagens Nyheter (DN).

Hann segir að hvorki hann né félagi hans, Jacob Ekström, kannist við þá sviðsmynd sem sett er upp í frétt Fox. „Okkur brá mjög í brún. Hann hefur klippt svörin til. Við vorum að svara allt öðrum spurningum í viðtalinu. Þetta er léleg blaðamennska,“ bætir hann við.

Ljósmyndarinn Emil Marczak tók upp viðalið hefur nú stigið fram og tekið undir þessar ásakanir lögreglumannanna.

Hann segir að Horowitz hafi haft mjög skýra sýn á hvað hann vildi að kæmi fram og ítrekað reynt að fá lögreglumennina til þess að taka undir það. Marczak vildi vera fullviss um að hann minnti rétt og hefur því farið yfir allt hráefnið, það er upptökur áður en Horowitz klippti myndina til og það sýni fram á að lögreglumennirnir eru að greina rétt frá. Þeir hafi ítrekað sagt í viðtalinu að þeir hafi engar upplýsingar um það sem Horowitz vildi að kæmi fram í myndinni. 

Emil Marczak segir í viðtali við DN að hann hefði aldrei tekið verkefnið að sér ef hann hefði grunað hversu óheiðarlega yrði unnið með efnið sem hann tók upp.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert