Handtökuskipanin „pólitískar ofsóknir“ Dutertes

Einn harðasti andstæðingur fíkniefnastríðs Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, öldungadeildarþingmaðurinn Leila de Lima, náði með naumindum að forða sér undan handtöku lögreglu og leita skjóls í þinginu í dag.

Handtökuskipanin hefur vakið mikla reiði meðal mannréttindasamtaka og stuðningsmanna de Lima. Segja þeir ríkisstjórnina standa á bak við tilbúnar ákærur á hendur de Lima um fíkniefnasmygl og að með þeim séu þeir að reyna að þagga niður í gagnrýni hennar á forsetann og hrella aðra.

De Lima, sem er lögfræðingur að mennt, hefur í tæpan áratug reynt að tengja Duterte við dauðasveitirnar sem taldar eru bera ábyrgð á dauða þúsunda. Verði de Lima dæmd sek um fíkniefnasmygl þá kann hennar að bíða lífstíðarfangelsisdómur.

„Ég hef engin áform um að reyna að flýja. Ég mun taka á móti öllum þessum ákærum,“ sagði de Lima við fréttamenn í þinghúsinu eftir að dómstóll í Manila gaf út handtökuskipun á hendur henni.

Segir AFP-fréttastofan de Lima ætla að gefa sig fram við lögreglu á morgun, en að siðareglur hindri lögreglu í að handtaka hana í þinginu.

De Lima er sökuð um að hafa staðið á bak við eiturlyfjahring í tíð sinni sem dómsmálaráðherra hjá síðustu ríkisstjórn landsins, sem var undir stjórn  Benigno Aquino. De Lima og stuðningsmenn hennar fullyrða hins vegar að hún sé saklaus og að Duterte ætli með þessu að þagga niður í einum harðasta gagnrýnanda sínum.

De Lima kallaði Duterte „siðlausan fjöldamorðingja“ fyrr í vikunni þegar hún hvatti almenna borgara til að rísa upp gegn fíkniefnastríði hans, sem hefur kostað rúmlega 6.500 manns lífið frá því hann settist á forsetastól fyrir 8 mánuðum.

Frjálslyndi flokkurinn, sem de Lima tilheyrir, hefur lýst yfir reiði yfir handtökuskipaninni sem flokkurinn telur ekkert annað en pólitískar ofsóknir. Þá segir í yfirlýsingu frá flokknum að menn óttist um líf de Lima ef hún verður handtekin. Var í því sambandi vitnað í morð lögreglu á þingmanninum Rolando Espinosa innan fangelsisveggja í nóvember á síðasta ári, eftir að Espinosa hafði verið handtekinn sakaður um fíkniefnasmygl.

Öldungadeildarþingmaðurinn Leila De Lima segist saklaus af ákærunum sem séu …
Öldungadeildarþingmaðurinn Leila De Lima segist saklaus af ákærunum sem séu pólitískar ofsóknir Dutertes til að þagga niður í henni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert