Hertóku flugvöllinn í Mósúl

Íraskir hermenn við flugvöllinn í Mósúl í dag.
Íraskir hermenn við flugvöllinn í Mósúl í dag. AFP

Öryggissveitir í Írak hafa hertekið flugvöllinn í borginni Mósúl íraski herinn hefur að undanförnu unnið að því að hrekja liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams frá vesturhluta borgarinnar. Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að hernaðaraðgerðin við að ná flugvellinum hafi tekið fjórar klukkustundir.

Hryðjuverkasamtökin héldu áfram að skjóta á flugvöllinn með sprengjuvörpum. Liðsmenn þeirra voru hraktir frá austurhluta Mósúl í síðasta mánuði. Áður en Ríki íslams hörfaði frá flugvellinum eyðilögðu liðsmenn þess flugbrautirnar á flugvellinum. Eftir sem áður er hertaka hans mikilvægur áfangi í baráttunni við samtökin.

Hernaðaraðgerðin hófst með loftárásum Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á bækistöðvar Ríkis íslams á flugvellinum. Brynvagnar sóttu síðan fram. Þúsundir íraskra hermanna tóku þátt í aðgerðinni segir í fréttinni. Erlendir hermenn börðust með íraska hernum en ekki kemur fram hverra þjóða þeir eru. 

Ríki íslams náði yfirráðum í Mósúl árið 2014. Rúmlega 160 þúsund manns hafa flúið heimili sín í borginni og í nágrenni hennar. Talið er að enn séu 650 þúsund óbreyttra borgara í borginni.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert