Skall í jörðina í lendingu

Bálhvasst var í Hollandi í dag og rann flugvél til …
Bálhvasst var í Hollandi í dag og rann flugvél til með þeim afleiðingum að hún skall í jörðina. AFP

Farþegaflugvél rann til í lendingu á Schipol-flugvellinum í Amsterdam í Hollandi í dag með þeim afleiðingum að vélin skall í jörðina og lendingarbúnaðurinn brotnaði. Kröftugur vindur var á flugvellinum en farþegum varð ekki meint af. 

Myndband af atvikinu náðist sem hefur birst víða á fréttasíðum eins og Dailymail og samfélagsmiðlum. Um 59 farþegar voru um borð í vélinni frá flugfélaginu FlyBe sem var á leið frá Edinborg. Hægri vængur vélarinnar straukst við jörðina. Starfsmenn flugvallarins rannsaka atvikið.


Um 100 flugferðum, sem voru um 60% flugferða um völlinn, seinkaði vegna stormsins. Hollenskir veðurfræðingar töldu að vindhviður hefðu farið í allt að 100 til 120 kílómetra á klukkustund í dag. Flugsamgöngur fóru einnig úr skorðum í Bretlandi í dag. Víða í Hollandi fuku bílar út af vegum og brýr brotnuðu.  

Hollenskir veðurfræðingar hafa sent út „appelsínugula“ viðvörun vegna veðurs sem gildir þar til snemma í fyrramálið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert