Söguðu hornin af lifandi dýrum

Margir munaðarlausir nashyrningar hafa verið aldir upp í Thula Thula-athvarfinu.
Margir munaðarlausir nashyrningar hafa verið aldir upp í Thula Thula-athvarfinu. Ljósmynd/Thula Thula-athvarfið

Vopnaðir menn ruddust inn í dýraathvarf fyrir nashyrninga í Suður-Afríku, réðust á dýrahirði með barsmíðum og skutu tvo unga nashyrninga. Þeir söguðu svo hornin af þeim og lögðu á flótta.

Árásin átti sér stað í Thula Thula-athvarfinu en þar eru munaðarlaus ung dýr, m.a. nashyrningar, fóstruð. 

Nashyrningarnir sem voru skotnir hétu Impy og Gugu. Þeir voru eins og hálfs árs gamlir. Annar þeirra drapst strax en hinn er enn á lífi en þó mjög alvarlega slasaður. Nashyrningar eru víða í mikilli útrýmingarhættu, ekki síst vegna veiðiþjófnaðar. 

Talið er líklegt að þessi tvö dýr hafi verið valin þar sem horn þeirra voruóvenju stór miðað við aldur. Enn er til fólk sem trúir því að efni í nashyrningshornum hafi lækningamátt og sé kynörvandi. Það hefur hins vegar ítrekað verið afsannað. Efnið er það sama og finnst í fingur- og tánöglum fólks.

Yvette Taylor, umsjónarmaður athvarfsins, segir í samtali við fréttasíðuna The Dodo að hennar versta martröð hafi nú orðið að veruleika. Ráðist hafi verið á dýr og það drepið. 

Taylor segir að veiðiþjófarnir hafi sagað hornin af nashyrningunum ungu á meðan þeir voru enn á lífi.

Dýrin höfðu bæði gengið í gegnum hrikalega lífsreynslu áður en þau komu í athvarfið. Annað þeirra hafði lifað af aðra árás veiðiþjófa. Móðirin var drepin og hornið tekið af henni. Sá litli stóð við hræ hennar dögum saman áður en honum var bjargað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert