Þurfti að hætta við lendingu

Vélin átti að lenda í Manchester. Myndin er úr safni.
Vélin átti að lenda í Manchester. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegaþota Icelandair þurfti að gera tvær tilraunir til lendingar á flugvellinum í Manchester í Bretlandi í dag vegna veðurs. Flugvélin hringsólaði áður en hún lenti örugglega. Myndband af atvikinu náðist af jörðu niðri og hefur verið birt í breskum fjölmiðlum, en í því sést flugvélin gera tilraun til að lenda en hættir við sökum hvassviðris.

Haft var eftir talsmanni Icelandair í frétt vefmiðilsins Daily Star að óskað hefði verið eftir því að flugvélin fengi að fara fremst í röðina svo hún gæti lent því eldsneytið hefði verið orðið af skornum skammti. „Þetta var samkvæmt venjulegu ferli þegar þessi staða kemur upp og ekkert annað vandamál í fluginu.“ Lendingin gekk vel en aðeins ókyrrð var vegna veðurs. 

Stormurinn Doris sem nú gengur yfir Bretland hefur valdið talsverðu tjóni. Flugi hefur verið frestað, vegum hefur verið lokað og lestarsamgöngur hafa farið víða úr skorðum. Ein kona lést í  borginni Wolverhampton þegar hún fékk grjót í höfuðið á göngu sinni. Mörg þúsund heimili hafa verið rafmagnslaus í norðurhluta Írlands, í Wales og í Jórvíkurskíri. 

Sky News hefur birt meðfylgjandi myndskeið sem sýnir fyrri tilraun vélarinnar til að lenda í borginni.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert