Ákærðir fyrir rasima í garð Jamie Foxx

Jamie Foxx.
Jamie Foxx. AFP

Tveir Króatar hafa verið ákærðir  fyrir brot á almannareglu að sögn dómara. Mennirnir eru sakaðir um rasistaníð í garð bandaríska leikarans Jamie Foxx.

Foxx, sem fékk Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á tónlistarmanninum Ray Charles árið 2005, er við tökur á kvikmynd um Hróa hött en hann fer með hlutverk Litla-Jóns í myndinni.

Þegar hann sat að snæðingi á veitingastað í Dubrovnik varð hann fyrir áreitni af hálfu tveggja manna. Foxx greindi frá þessu á Instagram en eyddi síðar færslunni. Lögreglan hefur hins vegar birt fréttatilkynningu þar sem fram kemur að hún hafi handtekið tvo menn, 44 og 50 ára, sem hefðu móðgað gesti og starfsfólk veitingahússins. 

Að sögn dómara, Mirjana Lujak, eru mennirnir ákærðir fyrir alvarlegt brot á almannareglu á sérstaklega hrokafullan og óviðeigandi hátt. 

Þeir hafa verið látnir laus en verði þeir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér annað hvort mánaðardvöl í fangelsi eða sekt upp á 700 evrur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert