Drepinn með öflugasta efnavopni heims

Starfsmaður sendiráðs N-Kóreu, Kim Yu Song, í Kuala Lumpur í …
Starfsmaður sendiráðs N-Kóreu, Kim Yu Song, í Kuala Lumpur í dag. AFP

Hálfbróðir leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-nam, var drepinn með mjög eitruðu taugagasi, VX, en samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er það öflugasta efnavopn sem vitað er með vissu að framleitt hafi verið.

„Á 6. áratugnum kom fram mjög eitrað efni, sem fékk nafnið VX. Við innöndun er það um það bil tífalt eitraðra en sarín. Það hefur þann sérstæða eiginleika að smjúga mjög auðveldlega gegnum húð og er þá nánast jafn eitrað og við innöndun. VX er öflugasta efnavopn, sem vitað er með vissu að framleitt hafi verið,“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Kim lést í síðustu viku eftir að tvær konur rákust á hann í innritunarsal alþjóðaflugvallarins í Kuala Lumpur í Malasíu. 

Samkvæmt eiturefnaskýrslu sérfræðinga á vegum malasísku lögreglunnar er ljóst að hann var drepinn með VX-taugagasi. Sameinuðu þjóðirnar skilgreina eitrið sem gjöreyðingarvopn, að því er segir í frétt BBC.

Þrálátur orðrómur er um að stjórnvöld í Norður-Kóreu standi á bak við morðið en þau neita því staðfastlega. 

Ríkislögreglustjóri Malasíu, Khalid Abu Bakar, sagði í dag að önnur konan sem hafði samskipti við Kim á flugvellinum hafi veikst eftir morðið og meðal annars kastað upp. Unnið er að því að hreinsa allt hátt og lágt á flugvellinum til þess að tryggja það að fleiri veikist ekki.

Kim lést á leiðinni á sjúkrahús fljótlega eftir árásina á flugvellinum 13. febrúar. Lík hans er enn geymt í líkhúsi sjúkrahússins en ríkin tvö deila um yfirráð yfir því. 

Khalid segir að leifar eitursins hafi fundist í augum Kim og andliti. Enn er unnið að rannsókn á því hvernig eitrið komst til Malasíu en mjög erfitt getur verið að finna slíkt eitur við leit þar sem það þarf aðeins lítið magn til þess að drepa.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert