„Ógn við lýðræðið“

Hluti blaðamanna sem var meinaður aðgangur að fundinum.
Hluti blaðamanna sem var meinaður aðgangur að fundinum. AFP

„Þetta er ógn við lýðræðið,“ segir New York Times sem er einn af mörgum fjölmiðlum sem fordæma aðgerðir Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta í garð fjölmiðla. Í gær meinaði Hvíta húsið þó nokkr­um banda­rísk­um fjöl­miðlum aðgang að óformlegum blaðamanna­fundi. BBC greinir frá. 

Fyrir vikið var rík­is­stjórn Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta ásökuð um að vilja hafa aðeins í kring­um sig þá fjöl­miðla sem hugn­ast henni. Fundurinn var hald­inn án þess að vera tek­inn upp á mynd­band eins og hingað til hef­ur verið gert.

Fréttamiðillinn BBC var einn þeirra sem fékk ekki að taka þátt í fundinum líkt og CNN, New York Times, the Guardian, the Los Angeles Times, Buzzfeed, the Daily Mail og Politico. 

Þeir miðlar sem fengu að sitja fundinn voru: ABC, Fox News, Breitbart News, Reuters og Washington Times. 

BBC óskar eftir útskýringu 

BBC hefur óskað eftir að Hvíta húsið útskýri ákvörðun sína frekar. 

„Við skiljum að í ákveðnum aðstæðum þarf Hvíta húsið að takmarka aðgang fjölmiðla. Hins vegar fellur það sem gerðist í dag [í gær] ekki inn í það mynstur,“ segir Paul Danahar starfsmaður BBC í Washington. Hann bætti við: „Við munum halda áfram að vera með sanngjarnan og hlutlausan fréttaflutning þrátt fyrir þetta.“ 

Bannið kom stuttu eftir að Trump hafði sagt að „falskar fréttir“ væru „óvinir fólksins“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert