Tugir látnir eftir árásir

Að minnsta kosti 32 létust í sjálfsvígssprengjuárásum og árásum vopnaðra manna á öryggissveitir í borginni Homs í Sýrlandi. Sýrlenska ríkissjónvarpið segir að yfirmaður leyniþjónustu hersins á svæðinu, Hassan Daabul, sé á meðal þeirra sem létust. Hann var náinn samstarfsmaður Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Samtökin Tahrir al-Sham segjast bera ábyrgð á árásunum. Samtökin urðu til þegar Nusra Front sleit samskiptum sínum við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin í júlí og gekk til liðs við smærri vígahópa í Sýrlandi.

Fram kemur á vef BBC, að Homs hafi verið undir yfirráðum stjórnarhersins frá því í desember 2015. Þá yfirgáfu uppreisnarmenn borgina í kjölfar vopnahléssamkomulags. 

Sýrlenska mannréttindavaktin segir að árásarmennirnir hafi ráðist á höfuðstöðvar hersins í borginni. Árásirnar voru gerðar í hverfunum Ghouta og Mahatta, en þar er gríðarlega mikil öryggisgæsla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert