Dauðapytturinn er fullur af líkum

Hermaður við holuna sem kölluð er Khasfah. Holan er skammt …
Hermaður við holuna sem kölluð er Khasfah. Holan er skammt frá þorpinu Athbah, suður af Mósúl. AFP

Pytturinn sem gæti verið stærsta fjöldagröf í nýjustu orrustunum í Írak, sést varla frá veginum. Hann virðist ekki annað en lítil dæld í eyðimörkinni í nágrenni Mósúl.

Staðurinn kallast Khasfah á arabísku en orðið þýðir „hola sem myndast í jarðvegi“. Þessi hola er þekkt meðal heimamanna og margir telja að hún hafi myndast eftir árekstur loftsteins.

En vígamenn Ríkis íslams breyttu henni í grafreit eftir að þeir náðu yfirráðum á svæðinu í júní árið 2014. Þar fóru þeir með þá sem taka átti af lífi. Líkin voru svo grafin á svæðinu, að sögn heimamanna sem til þekkja.

„Þeir voru með bundið fyrir augun og hendurnar voru bundnar fyrir aftan bak. Khasfah var beint fyrir framan þá. Þeir voru látnir krjúpa, þeir voru skotnir í höfuðið og svo ýtt ofan í,“ segir Mohamed Yassin, 56 ára, sem býr í bænum Hammam al-Alil. Yassin var áður hermaður og segist hafa séð fólk tekið af lífi á staðnum eftir að Ríki íslams náði þar yfirráðum.

Óttast staðinn

Hann fór reglulega þarna um er hann vann við olíuflutninga í nágrenninu. Hann segist hafa séð sex aftökur við pyttinn.

Hann segir að flestir þeir sem teknir voru af lífi hafi verið lögreglumenn, hermenn og embættismenn ríkisstjórnarinnar. Þeir hafi verið teknir af lífi fyrir tengsl sín við írösk stjórnvöld.

„Fólk fór að óttast þennan stað, þetta varð staður dauðans, staður þar sem fólk var tekið af lífi.“

Hussein Khalaf Hilal er 73 ára. Vígamenn Ríkis íslams fluttu hann að Khasfah eftir að hafa sakað hann um veitt fólki hjálp með óhefðbundnum lækningaaðferðum. Slíkt var að mati Ríkis íslams brot á reglum.

 „Þeir komu heim til mín, bundu fyrir augu mín, bundu hendur mínar fyrir aftan bak og fóru með mig í bíl með dökkum rúðum,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. „Þeir fóru með mig þangað til að hræða mig til að lýsa yfir stuðningi við sig.“

Hermaður gengur í nágrenni holunnar Khasfah. Holan er vöktuð en …
Hermaður gengur í nágrenni holunnar Khasfah. Holan er vöktuð en við hana er fullt af jarðsprengjum. AFP

Hann segir að vígamennirnir hafi látið fólk taka töflur og þvingað það svo til að fara ofan í holuna. „Þeir röðuðu þeim svo upp tíu og tíu eða fimmtán og fimmtán saman,“ segir hann.

Hilal neitaði að sverja hryðjuverkasamtökunum hollustu en bað um að fá að hugsa málið. Hann var því fluttur í fangelsi í stað þess að vera tekinn af lífi.

Þessar sögur af aftökum eru sambærilegar þeim sem Belkis Wille, íraskur rannsakandi hjá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, hefur heyrt. 

„Ég fór að heyra um þennan stað fyrir nokkrum árum, í viðtölum sem ég tók við fólk sem hafði flúið undan Ríki íslams,“ segir hún. Fólk sagði Wille frá aftökum við holuna og að fangaverðir Ríkis íslams hafi einnig sagt föngum frá því að þangað væri farið með fólk til að taka það af lífi.

Human Rights Watch rannsökuðu gervitunglamyndir sem sýndu að holan væri að fyllast. Heimamenn segja í samtölum við AFP-fréttastofuna að vígamenn Ríkis íslams hafi flutt bílhræ og gáma á svæðið og sett ofan í holuna. Síðan hafi jarðvegi verið ýtt yfir með stórum gröfum.

Um mánuði eftir að vígamennirnir voru hraktir frá svæðinu var farið að skoða svæðið og ljost að holan hafði minnkað. Í miðju hennar má sjá bílhræ.

Jarðsprengjur um allt

Hættan er ekki liðin hjá, jarðsprengjur eru víða á svæðinu.

„Þetta er staður þar sem sorgin ræður ríkjum,“ segir Abu Ahmed Hassani, hermaður í herdeild sem nú vaktar svæðið. Hann segir ekki annað hægt en að hugsa til allra þeirra Íraka sem hafa verið teknir þar af lífi. „Þeir drápu börn, þeir drápu gamalmenni, konur og karla.“

 Á laugardag létust fjórir á svæðinu, m.a. fréttamaður, er jarðsprengja sprakk rétt við holuna. 

Enn er ekki vitað hversu mörg lík eru grafin í holunni. „Við heyrum talað um 4.000 manns,“ segir Wille. Enn eigi þó eftir að fá þá tölu staðfesta. 

Human Rights Watch vilja að írösk stjórnvöld láti rannsaka svæðið og grafa líkin upp. „Við viljum sjá það gerast eins fljótt og mögulegt er, svæðið þarf að merkja og gæta,“ segir Wille.

Svo þurfi að fara í ítarlegri vinnu við að bera kennsl á líkin. 

Hassani segir það næstum ógerlegt. Búið sé að grafa mörgum sinnum ofan í holuna. „Það sem ætti að gera er að grafa yfir hana svo hún verði grafreitur fyrir íraska píslarvotta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert