Tóku þýskan gísl af lífi

Jurgen Kantner var tekinn í gíslinu á síðasta ári. Hann …
Jurgen Kantner var tekinn í gíslinu á síðasta ári. Hann hefur nú verið tekinn af lífi. AFP

Herskáir íslamistar á Filippseyjum hafa hálshöggvið þýskan mann sem þeir tóku í gíslingu gegn lausnargjaldi. Þetta var í annað sinn sem manninum var haldið gegn lausnargjaldi.

Öfgahópurinn kallar sig Abu Sayyaf og hefur birt myndskeið af því sem sagt er vera aftaka á gíslinum, Jurgen Kantner. Filippeysk yfirvöld höfðu áður komist á snoðir um að samtökin hefðu tekið Kantner af lífi.

Samtökin höfðu farið fram á um 65 milljónir króna í lausnargjald. Það átti að greiða fyrir sunnudag. Að öðrum kosti myndu þau taka hinn sjötuga Þjóðverja af lífi.

Samningamaður ríkisstjórnarinnar, Jesus Dureza segist í samtali við AFP-fréttastofuna að myndbandið staðfesti það sem þeir hefðu heyrt um að Kantner hefði verið myrtur. Yfirvöld hafa enn ekki séð lík hans.

Kantner var um borð í snekkju sinni, Rockall suður af Filippseyjum í fyrra er honum var rænt. Snekkjan fannst mannlaus á reki í nóvember og lík unnustu hans, Sabine Merz, var um borð. Hún hafði verið skotin til bana. 

Parinu hafði áður verið rænt árið 2008 og var þá haldið af sjóræningjum í Sómalíu. Þau voru síðar látin laus úr haldi eftir að hátt lausnargjald hafði verið greitt, að því er fram kom í fréttum.

Öfgahópurinn Abu Sayyaf er hliðhollur hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Hópurinn hefur ítrekað rænt útlendingum í áratugi og haldið þeim gegn lausargjaldi í frumskógum Suður-Filippseyja.

Í dag eru þeir með að minnsta kosti nítján útlendinga og sjö Filippseyinga í haldi. 

Samtökin voru stofnuð fyrir fé frá Al-Qaeda á sínum tíma er Osama bin Laden var þar við stjórnartaumana. Al Sayyaf stóðu að baki hryðjuverkaárás í Manila-flóa árið 2014 en þá létust 116. Árásin er sú mannskæðasta sem gerð hefur verið í  landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert