Ætlaði að drepa Írana

Ættingjar og vinir minntust Srinivas Kuchibholta.
Ættingjar og vinir minntust Srinivas Kuchibholta. AFP

Maður sem var handtekinn í síðustu viku fyrir að hafa skotið tvo Indverja á bar í Kansas í Bandaríkjunum sagði starfsfólki á veitingastað sem hann flúði á eftir árásina að hann hafi skotið  einhverja Írana á bar. Í ljós kom að þetta voru ekki Íranar heldur Indverjar. Annar þeirra lést en hinn særðist. 

Adam Purinton, sem er 51 árs, flúði af vettvangi á barnum Austins Bar and Grill sem er í bænum Oathe á veitingastaðinn Applebee í bænum Clinton Missouri (sem er í 112 km fjarlægð frá barnum) þar sem sem hann viðurkenndi fyrir starfsfólki hvað hann hafði gert. Hann var ákærður í gær fyrir morð og tilraun til þess að myrða tvo en þriðji maðurinn særðist við að reyna að aðstoða þá sem urðu fyrir skotárásinni. 

Samkvæmt frétt BBC var Purinton klæddur í hlífðarfatnaði sér til varnar við árásina. Að sögn lögreglu skaut Purinton Srinivas Kuchibholta og myrti á bar síðdegis á miðvikudag. Hann skaut á Kuchibhotla og félaga hans, Alok Madasani þar sem þeir sátu á barnum. Mennirnir eru 32 ára og störfuðu sem verkfræðingar hjá GPS-framleiðandanum Garmin. Ian Grillot, sem er 24 ára, særðist þegar hann reyndi að grípa inn í. 

Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú hvort um hatursglæp sé að ræða en þeir Kuchibholta og Madasani voru fastagestir á barnum. Vitni að árásinni segja að morðinginn hafi æpt „farið burtu úr landinu mínu“ áður en hann hóf skothríðina. Madasani segir í viðtali við BBC að árásarmaðurinn hafi krafist þess að fá að vita hvort þeir væru með löglegum hætti í landinu.

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, skrifaði á Twitter í gærkvöldi að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætti að tjá sig um morðið og tala gegn ofbeldi sem þessu á sama tíma og sífellt fleiri fréttir berist af hatursglæpum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert