Beitti 15 börn kynferðislegu ofbeldi

Börnin voru beitt kynferðislegu ofbeldi í flóttamannamiðstöð í Noregi.
Börnin voru beitt kynferðislegu ofbeldi í flóttamannamiðstöð í Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður í flóttamannamiðstöð í Agderfylki í Noregi hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt fimmtán börn kynferðislegu ofbeldi. Maðurinn sem starfaði í flóttamannamiðstöðinni 2013-2016 var handtekinn á fimmudaginn. Öll börnin sem hann beitti ofbeldi eru börn sem eru á flótta.

Fjallað er um málið á vef norska ríkisútvarpsins auk fleiri fjölmiðla. Að sögn Terje Kaddeberg Skaar, yfirsaksóknara lögreglunnar í Agder, er maðurinn ákærður fyrir að hafa beitt börnin, sem öll eru yngri en 16 ára, kynferðislegu ofbeldi þegar hann starfaði á flóttamannamiðstöð í Sørlandet.

Rætt hefur verið við börnin sem urðu fyrir ofbeldinu í Barnahúsi í Kristiansand. Innflytjendastofnun Noregs fékk upplýsingar um ásakanirnar á hendur manninum fyrir meira en viku síðan og eins hefur verið rætt við stjórnendur flóttamannamiðstöðvarinnar.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í fimm vikna gæsluvarðhald en hann neitar sök.

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert