Ekki hrekkur heldur morð

Þessi fjögur eru grunuð um aðild að morðinu: Muhammad Farid …
Þessi fjögur eru grunuð um aðild að morðinu: Muhammad Farid Bin Jalaluddin, Doan Thi Huong, Ri Jong Chol og Siti Aisyah. AFP

Tvær konur verða ákærðar fyrir morðið á Kim Jong-Nam sem var tekinn af lífi með banvænu taugagasi á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur nýverið.

Mohamed Apandi Ali, ríkissaksóknari Malasíu, greindi frá þessu í dag en tvær vikur eru síðan hálfbróðir leiðtoga Norður-Kóreu var myrtur á flugvellinum. Konurnar, önnur víetnömsk en hin indónesísk, verða leiddar fyrir dómara á morgun þar sem þær verða ákærðar fyrir morð. Verði þær fundnar sekar eiga þær yfir höfði sér dauðarefsingu. 

Á myndskeiði úr öryggismyndavélum sjást konurnar tvær setja eitthvað í andlit Kims í brottfararsal flugvallarins. Hann lést skömmu síðar á leið á flugvöllinn. Konurnar halda því fram að þær hafi verið að taka þátt í hrekk sem væri verið að taka upp á myndskeið. 

Siti Aisyah, 25 ára frá Indónesíu, segir að hún hafi fengið greiddar 400 malasísk ringgit, sem samsvarar tæpum 10.000 krónum, fyrir sinn hlut í hrekknum. Hún hafi haldið að vökvinn væri barnaolía.

Kim Jong-nam var drep­inn með mjög eitruðu taugagasi, VX, en sam­kvæmt Vís­inda­vef Há­skóla Íslands er það öfl­ug­asta efna­vopn sem vitað er með vissu að fram­leitt hafi verið. Sameinuðu þjóðirnar skilgreina VX sem gjöreyðingarvopn. 

Doan Thi Huong, 28 ára frá Víetnam, hefur einnig sagt að hún hafi verið göbbuð til að taka þátt í morðinu á Kim en hún hafi talið að um hrekk væri að ræða. Hrekkurinn væri hluti af grínmyndskeiði.

Saksóknari hefur ekki minnst á hvort norðurkóreski maðurinn sem einnig var handtekinn í tengslum við morðið, Ri Jong-Chol, sem er 46 ára gamall, verði ákærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert