Fálmkennd eða huglaus viðbrögð

Fórnarlamba árásarinnar í Sousse minnst á ströndinni þar sem blóðbaðið …
Fórnarlamba árásarinnar í Sousse minnst á ströndinni þar sem blóðbaðið varð. AFP

Viðbrögð lögreglunnar við blóðbaðinu á strönd Sousse árið 2015 voru í besta falli fálmkennd og í versta falli huglaus. Þetta segir breskur dómari sem rannsakað hefur dráp á þrjátíu Bretum í árásinni.

„Viðbrögð [lögreglunnar] hefðu getað verið og hefðu átt að vera árangursríkari,“ sagði dómarinn Nicholas Loraine-Smith í dag í uppkvaðningu sinni eftir fjölmargar vitnaleiðslur sem hófust í janúar.

Hann bendir á að verðir á hótelunum á svæðinu hafi ekki verið vopnaðir og ekki búnir talstöðvum. 

Hins vegar er það niðurstaða dómarans að enginn hjá TUI-ferðaskrifstofunni hafi sýnt af sér vanrækslu og að hótelið hefði ekki getað gert neitt til að fyrirbyggja árásina. 

Skaut alla sem hann sá

Seifeddine Rezgui skaut 38 manns til bana, þar af þrjátíu breska ferðamenn og þrjá írska í júní árið 2015. Árásina framdi hann við Riu Imperial Marhaba-hótelið í Sousse í Túnis. Hópur öfgafullra íslamista lýsti ábyrgðinni á árásinni á hendur sér. 

„Sá einfaldi en sorglegi sannleikur í þessu máli er sá að maður vopnaður byssu og sprengjum fór að þessu hóteli í þeim tilgangi að drepa eins marga ferðamenn og hann gat,“ sagði dómarinn. 

Ekki er um eiginlegt dómsmál að ræða heldur rannsókn af hálfu Breta að beiðni margra einstaklinga. Var í rannsókninni reynt að varpa ljósi á þær aðstæður sem voru uppi er Bretarnir voru drepnir. Niðurstaða dómarans hefur því engar afleiðingar aðrar en þær að hægt er að nota hana í einkamálum, kjósi ættingjar hinna látnu að höfða slík skaðabótamál.

Enn varað við ferðalögum til Túnis

Einhverjar fjölskyldur segjast ætla að fara í mál við ferðaskrifstofuna TUI. Lögmaður fjölskyldnanna segir að það sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustugreinina í heild að komast að því hvað gerðist í Sousse og hvernig megi tryggja eða draga úr líkum á að slíkt hendi aftur. 

Forstjóri TUI sagði fyrir utan dómshúsið í dag að allir hefðu fengið áfall og verið eyðilagðir eftir árásina. „Ég vil enn og aftur ítreka samúðarkveðjur okkar,“ sagði Nick Longman.

Hann segir að ferðaskrifstofan hafi gripið til aðgerða, m.a. væri nú hægt að sjá ferðaviðvaranir breskra stjórnvalda á heimasíðu skrifstofunnar. 

Sendiherra Túnis í Bretlandi, Nabil Ammar, sagði í samtali við BBC að lögreglan hefði ekki verið í viðbragðsstöðu. „Margt hefur breyst síðan þá. Betrumbætur hafa verið gerðar hvað varðar öryggisgæslu, líka á hótelunum og öryggisgæslu almennt í landinu.“

Breska utanríkisráðuneytið varar enn við ferðalögum til Túnis. Það leggst alfarið gegn ferðalögum til vissra svæða í landinu og biður fólk að ferðast ekki að óþörfu um önnur.

Túnisar stóla mikið á ferðaþjónustu og hafa ítrekað farið fram á að ferðaviðvörunum verði aflétt. 

Frestuðu komu sinni á hótelið

Samantha Leek, einn þeirra lögmanna sem fór fram á rannsóknina, segir að dómari í Túnis hafi bent á ýmsa galla í öryggismálum á svæðinu. Ef allt hefði verið eins og það átti að vera hefði verið hægt að stöðva árás Rezgui fyrr. 

„Hann sagði að sveitirnar sem áttu að sinna atvikinu hafi viljandi og með órökstuddum hætti frestað komu sinni að hótelinu,“ segir Leek. „Þeir hefðu getað stöðvað árásina áður en lögreglan kom en eyddu miklum tíma í að komast á staðinn.“

Ammar sendiherra segir þetta stórlega ýkt og ekki réttláta ásökun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert