Loka hundakjötsmarkaði fyrir ÓL

Dauðir hundar til sölu til manneldis.
Dauðir hundar til sölu til manneldis. AFP

Moran-markaðnum í Suður-Kóreu, þar sem um 80 þúsund hundar eru árlega seldir til manneldis, dauðir eða lifandi, verður lokað fyrir vetrarólympíuleikana í landinu á næsta ári. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir hundakjötssöluna sem viðgengst víða í landinu. Hundarnir eru drepnir með ómannúðlegum aðferðum, s.s. raflosti, barsmíðum eða hengingu.

Í fréttaskýringu Guardian um málið segir að Moran-markaðurinn sé stærsti hundamarkaðurinn í Suður-Kóreu. Hefð er fyrir hundakjötsáti, aðallega meðal eldra fólks, í landinu og um þriðjungur alls þess er seldur á þessum tiltekna markaði. 

Vilja bætur

Í gær hófust yfirvöld handa við að loka Moran-markaðnum með aðstoð þeirra sem að honum standa. Búr voru fjarlægð og aðstaða til slátrunar tekin niður. Hundarnir eru oftast lifandi í búrum á mörkuðum sem þessum en þegar kaupandinn hefur ákveðið sig er dýrið drepið á staðnum. 

Íbúar í nágrenni markaðarins fagna niðurrifinu og segjast fegnir að vera lausir við lyktina og hávaðann sem honum fylgir.

Það eru þó ekki allir jafnánægðir. Hundaslátrarar sem höfðu áður samþykkt að hætta starfsemi krefjast nú bóta. 

Yfirvöld í borginni Seongnam, þar sem markaðinn er að finna, segja að slátrararnir fái fjárhagslegan stuðning til að opna annars konar starfsemi. Er það gert í þeirri viðleitni að útrýma hundakjötssölu í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert