Lýsir yfir „þjóðarhamförum“

Mohamed Abdullahi, nýkjörinn forseti Sómalíu.
Mohamed Abdullahi, nýkjörinn forseti Sómalíu. AFP

Mohamed Abdullahi Mohamed, nýkjörinn forseti Sómalíu, hefur lýst yfir „þjóðarhamförum“ vegna mikilla þurrka sem hjálparstofnanir segja að valdi brýnum vanda hjá þremur milljónum Sómala.

Sómalía er eitt þriggja ríkja, ásamt Jemen og Nígeríu, sem eru á mörkum þess að búa við hungursneyð. Henni hefur þegar verið lýst yfir í Suður-Súdan.

Þarf að bregðast fljótt við

„Forsetinn hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins að bregðast fljótt við hörmungunum þannig að hægt verði að koma fjölskyldum og einstaklingum til hjálpar svo að þau geti jafnað sig á áhrifum mikilla þurrka. Þannig verður hægt að koma í veg fyrir harmleik í mannúðarmálum,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetaembættinu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði við því í gær að hungursneyð vofði yfir í Sómalíu í þriðja sinn á 25 árum. Síðast þegar hungursneyð varð í landinu létust um 260 þúsund manns.

6,2 milljónir þurfa aðstoð

Að sögn stofnunarinnar þurfa rúmlega 6,2 milljónir manna, helmingur þjóðarinnar, mannúðaraðstoð með hraði, þar á meðal þrjár milljónir sem eru farnar að finna fyrir hungri.

Á sama tíma hafa miklir þurrkar leitt til útbreiðslu niðurgangs, kóleru og mislinga í landinu. Hátt í 5,5 milljónir manna eiga á hættu að fá sjúkdóma út frá menguðu vatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert