Mestu réttarhöld í sögu Tyrklands

Mikil öryggisgæsla er við húsið þar sem réttarhöldin fara fram.
Mikil öryggisgæsla er við húsið þar sem réttarhöldin fara fram. AFP

Fjölmennustu réttarhöld sem fram hafa farið vegna hins misheppnaða valdaráns í Tyrklandi á síðasta ári hófust í dag. Réttarsalurinn var sérstaklega útbúinn til að hýsa um 1.500 manns.

Réttað verður yfir um 330 mönnum í Sincan, rétt fyrir utan höfuðborgina Ankara. Verði þeir fundnir sekir gætu þeir fengið margfalda lífstíðardóma fyrir meint tengsl sín við að reyna að koma forsetanum Recep Tayyip Erdogan frá völdum.

Ákærðir fyrir morð

Meira en 240 þeirra sem hafa verið ákærðir eru enn í varðhaldi. Margir hinna grunuðu hafa verið ákærðir fyrir morð eða tilraun til morðs.

Þeir eru einnig sakaðir um að hafa reynt að koma ríkisstjórninni og þinginu frá völdum og fyrir að hindra að þessar stofnanir gætu sinnt starfi sínu sem skyldi.

Málið er flutt við Sincan-fangelsið þar sem mikil öryggisgæsla er mikil. Drónar fljúga meðal annars yfir höfðum ættingja hinna ákærðu er þeir mæta til dómhaldsins.

Réttarsalurinn sjálfur tekur 1.558 manns í sæti. Þar er öryggisgæslan einnig mikil.

Var sagt að árás hefði verið gerð

Liðsforingjaefnið Abdulkadir Kahraman var fyrst hinna grunuðu til að taka sæti í vitnastúkunni. Hann sagði að kvöldið sem valdaránið var fyrirhugað hafi hermenn verið upplýstir af yfirmanni sínum að hryðjuverkaárás hefði verið framin. Þeim voru fengin vopn til að verjast. 

Aðrir hinna grunuðu gáfu svipaða vitnisburði, þeirra á meðal Arif Ozan Demir sem sagði að yfirmaður sinn hefði sagt að árás hefði verið gerð og að hermennirnir yrðu að vera í viðbragðsstöðu.

Réttarhöld víða um land

Stjórnvöld í Ankara hafa skellt skuldinni á trúarleiðtogann Fethullah Gulen sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. 

Hreyfing Gulens er af tyrkneskum stjórnvöldum álitin hryðjuverkasamtök og eru margir hinna grunuðu sem nú er réttað yfir sagðir tengjast henni og öðrum vopnuðum skæruliðahreyfingum.

Réttarhöld vegna hins misheppnaða valdaráns fara fram víðar um landið, m.a. í borginni Mugla þar sem 47 sakborningar hafa verið ákærðir fyrir að reyna að ráða Erdogan af dögum.

Í borginni Izmir fóru einnig fram fjölmenn réttarhöld yfir 270 sakborningum í síðasta mánuði. Þeirra á meðal var Gulen sem var hins vegar ekki viðstaddur.

Eftir valdaránstilraunina var lýst yfir neyðarástandi í Tyrklandi og í kjölfarið fylgdu umfangsmiklar aðgerðir til að reyna að hafa uppi á þeim sem ríkisstjórnin taldi standa að baki henni. Meira en 43 þúsund manns voru handteknir.  

Réttarhöldin nú eru þau umfangsmestu sem fram hafa farið í sögu landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert