Vagn hrundi undan þunga dansara

Slökkviliðsmenn flytja slasaða af vettvangi í göngunni í morgun.
Slökkviliðsmenn flytja slasaða af vettvangi í göngunni í morgun. AFP

Ellefu slösuðust á fjórða degi skrúðgöngu í tilefni kjötkveðjuhátíðarinnar í Brasilíu er vagn gaf sig undan þunga dansaranna sem á honum voru. Þetta er annað slysið sem verður í skrúðgöngunni á tveimur dögum.

Slysið átti sér stað um klukkan sex í morgun að íslenskum tíma í Unidos da Tujuca-skrúðgöngunni í Rio de Janeiro. Í fyrradag rann flutningabíll sem á var einn vagna göngunnar á áhorfendur. Þá slösuðust tuttugu.

Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi í morgun. AFP

Yfirvöld segja að tveir þeirra ellefu sem slösuðust í morgun séu alvarlega slasaðir.

Mikið öngþveiti skapaðist er vagninn hrundi. Lögreglan þurfti að ýta við ljósmyndurum og öðrum sem voru að fylgjast með til að sjúkrabílar kæmust að slysstaðnum.

„Ég var á vagninum, stóð til vinstri er ég sá hægri hliðina hrynja,“ segir dansarinn Raissa Ribeiro við AFP-fréttastofuna. 

Kjötkveðjuhátíðin hófst með skrúðgöngum á sunnudag. Í göngunni sýna dansarar dansskóla færni sína í sambadönsum með tilheyrandi búningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert