Danir herða reglur um vegabréfsáritanir

Ríkisborgarar sex landa geta ekki fengið vegabréfsáritun til Danmerkur nema …
Ríkisborgarar sex landa geta ekki fengið vegabréfsáritun til Danmerkur nema í mjög sérstökum tilfellum. mbl.is/Brynjar Gauti

Útlendinga- og aðlögunarráðuneyti Danmerkur hefur gefið út nýjar reglur um vegabréfsáritanir til landsins en samkvæmt þeim geta ríkisborgarar sex landa ekki fengið vegabréfsáritun nema í mjög sérstökum tilfellum.

Í frétt Berlingske kemur fram að þeim löndum, frá hverjum ríkisborgarar þurfa að fá vegabréfsáritanir, sé skipt niður í fimm flokka, eftir því hversu létt eða erfitt það er að fá vegabréfsáritun. Ríkisborgarar frá löndum í flokki 1 eiga þá auðveldast með að fá vegabréfsáritun en erfiðast er það fyrir ríkisborgara frá löndum í flokki 5.

Þar til nú hafði flokkur 5 eingöngu náð til Sýrlands og Sómalíu en samkvæmt skilgreiningum nær flokkurinn til landa eða landsvæða þeirra ríkisborgara sem eru taldir eru líklegir til að gerast ólöglegir innflytjendur í Danmörku eða öðrum löndum innan Schengen-svæðisins.

Samkvæmt nýju reglunum hafa fjögur lönd til viðbótar bæst í flokkinn: Afganistan, Pakistan, Erítrea og Írak. Geta ríkisborgarar þessara landa nú til dæmis ekki fengið vegabréfsáritun vegna viðskiptaheimsókna til Danmerkur.

„Yfirleitt fá ríkisborgarar landa í flokki 5 aðeins vegabréfsáritanir í mjög sérstökum tilfellum, til dæmis ef nákominn fjölskyldumeðlimur sem er búsettur í Danmörku er lífshættulega veikur eða deyr. Vegabréfsáritanir eru ekki gefnar út vegna heimsókna er varða viðskipti, menningu eða vísindi,“ segir í opinberri tilkynningu frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert