Hvað er að gerast hjá Fillon?

François Fillon, forsetaframbjóðandi repúblikana í Frakklandi.
François Fillon, forsetaframbjóðandi repúblikana í Frakklandi. AFP

François Fillon, forsetaframbjóðandi repúblikana í Frakklandi, hætti við heimsókn á helstu landbúnaðarsýningu landsins á síðustu stundu í morgun og hefur boðað fjölmiðla á sinn fund í hádeginu. Er Fillon hættur við forsetaframboðið spyrja margir í frönskum fjölmiðlum.

Kosningaskrifstofa Fillon hefur ekki veitt neinar skýringar á því hvers vegna hann hætti við á síðustu stundu annað en að ný dagsetning heimsóknar hans verði tilkynnt síðar. Til stóð að hann myndi mæta snemma á sýninguna og voru margir blaðamenn og fréttamenn þegar mættir á landbúnaðarsýninguna í París til þess að fylgjast með honum skoða sig um. Eins voru starfsmenn framboðsins mættir og tilbúnir til þess að fagna sínum frambjóðanda við komuna.

Á ýmsu hefur gengið í kosningabaráttunni hjá Fillon. Hann hafði betur í forvali flokksins gegn Alain Juppé en margir töldu fyrir fram að Juppé yrði fyrir valinu. Fyrstu skoðanakannanir bentu til þess að leiðin yrði greið fyrir Fillon í sæti forseta en raunin varð önnur eftir að frétt ádeiliritsins  Le Canard Enchaîné birtist um að fjölskylda hans hafi þegið laun hjá franska þinginu án þess að hafa unnið til þeirra.

Síðan þá fjölgaði hneykslisfréttum af greiðslum til Penelope eiginkonu hans og er nú talað um Penelopegate hneykslið í frönskum fjölmiðum með vísan í Watergate-hneykslið á sínum tíma. 

Í síðustu viku hóf ríkissaksóknari rannsókn á fullyrðingum um launamál fjölskyldunnar og fylgið hrundi af Fillon í skoðanakönnum. 

Vegna þessa er ekki lengur talið að Fillon og Marine Le Pen muni komast í aðra umferð kosninganna heldur Le Pen og miðjumaðurinn Emmanuel Macron. Mun minna hefur farið fyrir fréttum af fjármálahneyklsi tengdu Le Pen en hún er sökuð um að hafa tekið þátt í að svíkja fé út úr Evrópuþinginu og því eru bæði hún og Fillon sökuð um að hafa svikið fé úr opinberum sjóðum. 

Í síðustu viku hóf saksóknari einnig rannsókn á aðstoðarmanneskju Le Pen og húsleit var gerð í höfuðstöðvum flokksins í París. 

Le Pen, sem er formaður þjóðernisflokksins Front National segir rannsóknina á fjármálum hennar og starfsfólks flokksins minna á blóðhefnd (vendetta). 

Þingmenn Evrópuþingsins hafa samþykkt að aflétta friðhelgi Le Pen svo saksóknarar í Frakklandi geti saksótt hana fyrir myndir sem hún birti á Twitter af morðum vígamanna Íslamska ríkisins. Rannsakað er hvort hún hafi brotið lög í Frakklandi með því að dreifa ofbeldismyndum og hvetja til hryðjuverka.

Francois Hollande forseti mætti á landbúnaðarsýninguna í fyrradag (Salon de …
Francois Hollande forseti mætti á landbúnaðarsýninguna í fyrradag (Salon de l'Agriculture) AFP

Landbúnaðarsýningin í París er haldin árlega og er sýningin ein sú stærsta af þessu tagi í Evrópu. Hefð er fyrir því að forseti Frakklands komi á sýninguna og í raun allir helstu stjórnmálamenn landsins. Enda eftir miklu að sækjast þar sem flestir bændur landsins koma saman. 

Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, var afar vinsæll meðal bænda og var alltaf vel fagnað þegar hann mætti á sýninguna en minna hefur farið fyrir aðdáun bænda á forseta landsins eftir það.

AFP

Fyrrverandi forseti Frakklands og flokksbróðir Fillon, Nicolas Sarkozy, átti ömurlegan dag á landbúnaðarsýningunni árið 2008 þegar hann sagði: „Burt með þig, fjárans fíflið þitt,“ við mann sem neitaði að taka í hönd hans á landbúnaðarsýningunni. Myndskeið af samskiptum þeirra fór eins og eldur í sinu um netheima og þegar Sarkozy bauð sig fram til endurkjörs var myndskeiðið fljótt að fara af stað í netheimum á nýjan leik. François Hollande hafði betur í kosningunum en bændur létu hann einnig finna til tevatnsins þegar hann sótti sýninguna heim í fyrra. 

Þegar Hollande reyndi að flytja ræðu á sýningunni í fyrra gjömmuðu þeir stöðugt og eins var sýningarbás landbúnaðarráðuneytisins lagður í rúst.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert