Í hvað fara allir þessir peningar?

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill auka fjárútlát til hersins um tæp 10%. Þar með yrði enn meira fjármagni veitt til málaflokks sem er nú þegar stærri en hjá næstu sjö þjóðum á eftir samanlagt.

Tillaga hans hefur mætt harðri mótstöðu en ef hún verður samþykkt myndi fjármagnið aukast um 54 milljarða dollara í 603 milljarða dollara, auk þess sem milljarðar dollara yrðu notaðir til viðbótar ef til stríðs kæmi í öðrum löndum.

Vandamál á ferðinni 

Á vef CNN er því velt upp hvað væri hægt að gera við þetta aukafjármagn sem Trump vill setja í varnarmálin. Þar segir einnig að upphæðin sé einn fimmti af heildarupphæðinni sem Kínverjar ætla að setja í varnarmál árið 2020, 223 milljörðum dollara.  

Gagnrýnendur hafa sett spurningarmerki við nauðsyn alls þessa fjármagns sem Trump hefur lagt til að verði varið til varnarmála en Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, segir að herinn eigi við vandamál að etja á mörgum vígstöðvum og telur að peningarnir komi að góðum notum. Repúblikanar sem eru hvað lengst til hægri telja að þessi aukafjárveiting dugi ekki næstum því til.

Til hvers þarf bandaríski herinn svona mikið auka fjármagn? Stutta svarið hjá Pentagon er: Í mjög margt.

Bandarískir hermenn í Kandahar í Afganistan árið 2014.
Bandarískir hermenn í Kandahar í Afganistan árið 2014. AFP

Geta ekki brugðist nógu hratt við

Stjórnendur hersins hafa á undanförnum vikum varað við stöðu mála og sagt að vopn og farartæki séu komin til ára sinna og undirfjármögnun hafi valdið því að Pentagon telji sig ekki geta brugðist nógu hratt við ef til hættuástands kemur.

Þeir segja að stríð í Afganistan, Írak og annars staðar hafi sett mark sitt á vopnabúnaðinn og það sé nauðsynlegt að fá glæný tæki og tól eða að gera endurbætur á gömlu tækjunum.

„Við fórum út úr Írak en við erum aftur komin í Írak. Við yfirgáfum Afganistan en erum samt ekki farin þaðan,“ sagði Herbert „Hawk“ Carlisle, hershöfðingi og yfirmaður hjá flughernum. „Við vorum í Líbýu, við erum með Jemen, við erum enn með Norður-Kóreu, við höfum Suður-Kínahaf, Úkraínu,“ bætti hann við.

Hermenn verði 350 þúsund

Carlisle benti á að flugherinn hefði fækkað flugsveitum sínum úr tæplega 100 við upphaf stríðanna í Afganistan og Írak niður í 55, jafnvel þótt herþotur séu mikið notaðar í baráttunni gegn Ríki íslams. Hann vill að fjöldi flugsveitanna verði aukinn í sextíu.

Fleiri tól og tæki tengd hernaði eru einnig nefnd til sögunnar, þar á meðal langdrægar kjarnorkueldflaugar og herþotan F-35, auk þess sem skortur er á herþotuflugmönnum en markmiðið er að fjölga þeim úr 317 þúsundum í um 350 þúsund.

Þarna er bara verið að tala um flugherinn.

Trump fyrirskipaði í janúar að hefja stækkun bandaríska hersins. Hann lofaði nýjum flugvélum, herskipum og fleiri starfsmönnum í varnarmálaráðuneytið.

Hann gaf ekki upp nákvæmlega það sem hann hafði í hyggju en sagðist sjá fyrir sér 350 herskip. Þau eru núna 274 talsins.

Loftmynd af höfuðstöðvum Pentagon í Washington.
Loftmynd af höfuðstöðvum Pentagon í Washington. AFP

Langur listi hjá sjóhernum

Sjóherinn er með langan óskalista yfir hergögn og farartæki fyrir þetta ár, ef nægir peningar eru fyrir hendi. Á meðal þeirra eru 24 svokallaðar F/A Super Hornets-herþotur, sex Poseidon-eftirlitsvélar og annað árásarskip sem er bæði hægt að nota í sjó og á landi.

Hvorki Trump né herinn hafa greint frá því hvers konar herskipum þörf er á en kostnaðurinn yrði mjög fljótur að hækka.  Þannig kostar einn Virginia Class-kjarnorkukafbátur um 2,7 milljarða dollara. Nýtt flugmóðurskip kostar hátt í 12 milljarða dollara.

Bandarískt flugmóðurskip í Suður-Kínahafi.
Bandarískt flugmóðurskip í Suður-Kínahafi. AFP

Þarf hálfa milljón hermanna

Hvað landherinn varðar segir Thomas Spoehr, fyrrverandi hershöfðingi, að þörf sé á fleiri en þeim 476 þúsund hermönnum sem hafa verið áætlaðir fyrir árið 2017. Hann telur að þeir verði að minnsta kosti að vera 500 þúsund. Hermönnum fækkaði umtalsvert eftir að bandaríski herinn dró sig út úr Írak og Afganistan en þegar mest lét voru þeir 570 þúsund talsins.

Óvíst með samþykki 

Þrátt fyrir loforð Trumps um „mikla endurbyggingu“ hersins er óljóst hvernig honum tekst að efna það. 

Í tíð forvera hans í embætti, Baracks Obama, var þak sett á eyðslu í varnarmál. Bandaríska þingið, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, þurfa samþykki demókrata fyrir auknum fjárútlátum til hersins. Það gæti reynst erfitt fyrir Trump að sannfæra demókratana um það, sérstaklega vegna þess að hann vill fjármagna þetta með því að draga úr fjármagni til annarra opinberra stofanna, auk þess sem hann vill lækka skatta.

John McCain.
John McCain. AFP

McCain vill ganga lengra

John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana, er á þeirri skoðun að tillögur Trumps gangi ekki nógu langt.

Trump hefur óskað eftir 18,5 milljörðum dollara til viðbótar við það sem Obama hafði lagt til fyrir árið 2018. McCain vill sjá heildarupphæðina fara í 640 milljarða dollara í stað 603 milljarða.

„Trump ætlar að leggja til fjármagn til varnarmála sem er aðeins rúmlega þremur prósentum hærra en fjármagn Obama. Herinn okkar er undirfjármagnaður, of lítill og ekki tilbúinn til að takast á við ógnir gagnvart þjóðaröryggi okkar,“ sagði McCain.

„Þegar heimurinn logar geta Bandaríkin ekki tryggt friðinn með aðeins þriggja prósenta aukningu frá tíð Baracks Obama. Við getum og verðum  að gera betur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert