Þjóðarstoltið verði endurvakið

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hét því í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í gærkvöldi að endurvekja þjóðarstolt bandarísku þjóðarinnar og eins lofaði hann ýmsum efnahagslegum umbótum. Hann gagnrýndi hótanir í garð gyðinga í Bandaríkjunum og fordæmdi morð á indverskum innflytjanda í Kansas í ræðu sem hann flutti á mun yfirvegaðri hátt en oft áður. 

Trump hét því að fylgja harðri stefnu gagnvart ólöglegum innflytjendum í landinu og setti hann stefnuna fram með efnahagsleg sjónarmið að leiðarljósi fremur en sem útlendingahatur. Féllu orð hans í góðan jarðveg hjá gestum í þingsalnum en þar eru repúblikanar í meirihluta.

Segir Trump að með því að framfylgja loks innflytjendalögum landsins verði hægt að hækka laun, hjálpa atvinnulausum, spara milljarða og aftur milljarða Bandaríkjadala. Svo ekki sé talað um að tryggja meira öryggi í samfélaginu.

Trump hét því að koma á stefnu svipaðri þeirri sem er í Ástralíu og draga úr flæði ófaglærðra til landsins. Hann vísaði í Abraham Lincoln, fyrsta forseta repúblikana, í ræðu sinni og sagði að Lincoln hefði haft rétt fyrir sér og rétt væri að veita orðum Lincoln athygli. Hann ætli sér ekki að láta aðra hagnýta sér Bandaríkin og frábær fyrirtæki í landinu og starfsmenn þeirra framar.

Ekki í forsvari fyrir heiminn heldur Bandaríkin

Í utanríkismálum dró Trump verulega úr gagnrýni sinni á Atlantshafsbandalagið og bandamenn Bandaríkjanna. Hann hét því að vinna með bandamönnum Bandaríkjanna í múslimalöndum. Bandaríkin muni virða sögulegar stofnanir en þau muni einnig virða sjálfstæðan rétt ríkja. Frjáls ríki séu best til þess fallin að túlka vilja fólksins og Bandaríkin virði rétt allra ríkja til þess að kortleggja sína eigin leiðir.

„Starf mitt er ekki að vera í forsvari fyrir heiminn. Mitt starf er að vera í forsvari fyrir Bandaríkin,“ sagði Bandaríkjaforseti í stefnuræðu sinni á þingi. Hann segir að Bandaríkin geri sér grein fyrir því að þeim vegni betur í átakaminni heimi og hét því að finna nýja vini og mynda ný tengslanet þar sem sameiginleg markmið eru höfð að leiðarljósi.

Trump hét bandarísku þjóðinni umtalsverðum skattalækkunum í ræðu sinni, einkum millistéttinni, og ógilti áform forvera síns í starfi, Barack Obama, í heilbrigðismálum.

Bandaríkjaforseti hafði áður greint frá fyrirætlun sinni um að stórauka útgjöld ríkisins til varnarmála en minnka útgjöldin í öðrum málaflokkum.

Trump sagði á Twitter í vikunni að hann hygðist setja þjóðaröryggi Bandaríkjanna í forgang í fjárlögunum. Fréttaveitan AFP hafði eftir embættismanni í stjórn forsetans að hann ætlaði að auka útgjöldin til varnarmála um 54 milljarða dollara, jafnvirði 5.800 milljarða króna. Stefnt væri að því að spara sömu fjárhæð í öðrum málaflokkum. „Útgjöldin til flestra alríkisstofnana verða þess vegna minnkuð,“ sagði hann.

Að sögn AFP er gert ráð fyrir því að útgjöldin til varnarmála aukist um 10%. Talið er að loforð Trumps í kosningabaráttunni kosti alls um 5,3 billjónir dollara, samkvæmt útreikningum óháðrar stofnunar í Washington, Committee for a Responsible Federal Budget.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert