Ber fullt traust til Sessions

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í dag aðspurður bera fullt traust til Jeffs Sessions dómsmálaráðherra en þess hefur verið krafist að ráðherrann segi af sér embætti í kjölfar frétta um að hann hafi fundað með rússneskum embættismönnum á síðasta ári á meðan kosningabaráttan fyrir bandarísku forsetakosningarnar stóð yfir.

Trump sagði við blaðamenn um borð í bandaríska flugmóðurskipinu USS Gerald R. Ford að honum hefði ekki verið kunnugt um að Sessions hefði fundað í tvígang með Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Spurður hvort hann bæri enn traust til ráðherrans svaraði Trump að hann bæri fullkomið traust til Sessions, samkvæmt frétt AFP.

Sessions hefur sagt sig frá öllum málum sem snúa að rannsókn á samskiptum við rússneska embættismenn meðan á kosningabaráttunni stóð. Hann hefur þvertekið fyrir að hafa logið að bandarískri þingmannanefnd þar sem hann var spurður um samskiptin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert